Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   lau 17. febrúar 2024 15:18
Brynjar Ingi Erluson
Klopp eftir leikinn: Blendnar tilfinningar
Jürgen Kopp
Jürgen Kopp
Mynd: EPA
Tilfinningar Jürgen Klopp, stjóra Liverpool, voru blendnar eftir 4-1 sigurinn á Brentford í dag.

Liverpool náði í mikilvægan sigur í titilbaráttunni og mun halda toppsætinu út þessa helgi, en þrír leikmenn liðsins meiddust í leiknum og er framhaldið algerlega óvíst.

„Það eru blendnar tilfinningar eftir þennan leik. Við misstum leikmenn og vitum ekki hversu alvarlegt það er, en þetta lítur ekkert frábærlega út,“ sagði Klopp.

„En það sem strákarnir gerðu eftir fyrstu fimmtán mínúturnar var stórkostlegt og það gegn liði sem leggur upp með að fara í taugarnar á þér. Átján sinnum kom fast leikatriði sem flaug inn í teiginn og þá þarftu menn og heppni á þessum augnablikum og sömuleiðis markvörð, sem spilaði ótrúlegan leik.“

„Við spiluðum góðan leik frá ákveðnu augnabliki. Við náðum að stjórna þeim eins vel og hægt er og við erum auðvitað ánægðir með það.“

Diogo Jota og Curtis Jones fóru meiddir af velli í fyrri hálfleik og þá var Darwin Nunez skipt af velli í hálfleik. Klopp segir meiðsli Jones og Jota ekki líta vel út, en hann var óviss með Nunez.

„Klárt mál. Ég held að Curtis hafi fengið högg og svo auðvitað brotið á Jota. Við erum ekki vissir hvort Darwin sé að glíma við eitthvað eða ekki, en hann fann fyrir einhverju.“

„Sjáum til. Það var aldrei auðvelt fyrir okkur en í augnablikinu erum við góðir. Við erum með 57 stig og spilum síðan eftir nokkra daga,“
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner