Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 17. júlí 2024 22:33
Brynjar Ingi Erluson
Fótbolti.net bikarinn: Óvænt og dramatískt í Breiðholti - Vængir Júpiters kláruðu KFK á tuttugu mínútum
Árbæingar eru komnir áfram eftir dramatískan sigur
Árbæingar eru komnir áfram eftir dramatískan sigur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Ó er úr leik
Víkingur Ó er úr leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nacho Gil skoraði í frumraun sinni
Nacho Gil skoraði í frumraun sinni
Mynd: Selfoss
Vængir Júpíters unnu sannfærandi sigur á KFK
Vængir Júpíters unnu sannfærandi sigur á KFK
Mynd: Aðsend
Árbær vann óvæntan og dramatískan 3-2 sigur á Víkingi Ólafsvík í 16-liða úrslitum Fótbolta.net bikarsins á Domusnova-vellinum í efra Breiðholti í kvöld, en alls voru þrjú mörk skoruð í uppbótartíma. Selfoss og Vængir Júpíters fara með Árbæ í 8-liða úrslitin.

Árbæingar eru í toppbaráttunni í 3. deild karla á meðan Víkingar eru í toppbaráttu í 2. deild.

Ólafsvíkingar voru betri í byrjun leiks. Arnór Siggeirsson, fyrirliði Víkinga, átti tvö hættuleg færi snemma leiks. Hann komst einn í gegn á 3. mínútu en Bartosz Matoga, markvörður Árbæinga, gerði vel og kom hættunni frá með að tækla boltann af Arnóri.

Tíu mínútum síðar átti Arnór skalla sem fór í stöngina og útaf.

Það var því gegn gangi leiksins er Eyþór Ólafsson kom Árbæ í forystu á 25. mínútu. Jordan Tyler fékk sendingu í gegn og komst einn á móti markverði, en ákvað að senda hann til hliðar í stað þess að skjóta og á Eyþór sem skoraði.

Sex mínútum síðar fékk Arnór þriðja hættulega færi sitt í leiknum en í þetta sinn skaut hann boltanum í þverslá. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Árbæingum.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af þeim síðari kom jöfnunarmark gestanna. Luis Romero Jorge fékk sendingu í gegn og lagði hann til hliðar á Eyþór Örn Eyþórsson sem skoraði. Keimlíkt marki Árbæinga.

Hálftíma fyrir leikslok var Jordan nálægt því að koma Árbæingum yfir en skot hans hafnaði í stöng..

Ólafsvíkingar voru hársbreidd frá því að komast yfir þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en skalli þeirra hafnaði í stöng. Tréverkið að þvælast fyrir þeim í leiknum og reyndist það dýrt.

Dramatíkin fór síðan af stað í uppbótartímanum. Sigurður Karl Gunnarsson kom Árbæingum í forystu á annarri mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Arons Breka Aronssonar og ætlaði allt að tryllast.

Aðeins tveimur mínútum síðar bættu þeir við þriðja markinu er varamaðurinn Djordje Panic slapp einn í gegn og setti boltann framhjá Stefáni í markinu.

Á 96. mínútu í uppbótartíma náðu Víkingar inn sárabótarmarki er Daði Kárason skoraði eftir stoðsendingu Arnórs en það kom bara allt of seint.

Árbær fer í 8-liða úrslit bikarsins en Víkingur er úr leik.

Selfoss og Vængir Júpiters áfram

Selfyssingar unnu KFG, 3-1, á JÁVERK-vellinum í kvöld. KFG komst í úrslit bikarsins á síðasta ári, en hafa nú lokið ævintýri sínu þetta árið.

Nacho Gil, sem kom til Selfyssinga á láni frá Vestra á dögunum, skoraði fyrsta markið á 10. mínútu leiksins. Fimmtán mínútum síðar bætti Gonzalo Zamorano við öðru marki.

Hann fékk flugbraut upp allan völlinn og skoraði með laglegu skoti í nærhornið.

KFG náði að halda spennunni í leiknum með því að minnka muninn á 56. mínútu. Róbert Kolbeins Þórarinsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Bjarka Flóvents Ásgeirssonar.

Gestirnir höfðu verið að gera ágætis hluti í síðari hálfleiknum og var það því mikið reiðarslag þegar Alexander Clive Vokes gerði þriðja mark Selfyssinga með góðu skoti.

Selfyssingar náðu að halda forystunni nokkuð örugglega og verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit á föstudag.

Vængir Júpíters unnu þá sannfærandi 4-0 sigur á KFK. Heimamenn skoruðu öll fjögur mörk sín á rúmum tuttugu mínútum. Almar Máni Þórisson skoraði tvö og þá gerðu þeir Daníel Smári SIgurðsson og Aðalgeir Friðriksson eitt.

Úrslit og markaskorarar:

Selfoss 3 - 1 KFG
1-0 Ignacio Gil Echevarria ('10 )
2-0 Gonzalo Zamorano Leon ('25 )
2-1 Róbert Kolbeins Þórarinsson ('56 )
3-1 Alexander Clive Vokes ('69 )
Lestu um leikinn

Árbær 3 - 2 Víkingur Ó.
1-0 Eyþór Ólafsson ('25 )
1-1 Eyþór Örn Eyþórsson ('55 )
2-1 Sigurður Karl Gunnarsson ('92 )
3-1 Djordje Panic ('94 )
3-2 Daði Kárason ('96 )
Lestu um leikinn

Vængir Júpiters 4 - 0 KFK
1-0 Daníel Smári Sigurðsson ('7 )
2-0 Almar Máni Þórisson ('12 )
3-0 Aðalgeir Friðriksson ('20 )
4-0 Almar Máni Þórisson ('21 )
Rautt spjald: Sigurður Orri Magnússon , KFK ('80)
Athugasemdir
banner