Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 17. ágúst 2022 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
BBC: Stjórnendur kenna Ronaldo um slæma byrjun
Mynd: Heimasíða Man Utd
Mynd: Getty Images
BBC greinir frá því að stjórnendur Manchester United séu í alvarlegum hugleiðingum um að enda samning Cristiano Ronaldo. Þeir kenna honum um slæma byrjun liðsins á enska úrvalsdeildartímabilinu eftir að hafa átt frábært undirbúningstímabil án hans.

Rauðu djöflarnir spiluðu glimrandi fótbolta á undirbúningstímabilinu en það telur ekki þegar mætt er í alvöru keppnisleiki. Þeir töpuðu heimaleik gegn Brighton í fyrstu umferð og steinlágu svo á útivelli gegn Brentford um helgina.

Stjórnendur telja nærveru Ronaldo vera skaðsama fyrir liðsfélagana þar sem hann hefur ekki farið leynt með vilja sinn til að yfirgefa félagið. 

Heimildarmenn innan Man Utd sögðu við BBC Sport að þeir óttast að það verði engin framför á spilamennsku liðsins fyrr en Ronaldo rær á önnur mið. Þeir telja að það komi sér vel fyrir félagið að losna við hann þó enginn sóknarmaður finnist til að fylla í skarðið.

Erik ten Hag, Richard Arnold og John Murtough, knattspyrnustjóri og tveir æðstu stjórnendur félagsins, þurfa að glíma við þetta og leysa ástandið fyrir 1. september. Man Utd tekur á móti Liverpool í næstu umferð og myndi tap þar marka verstu byrjun félagsins í úrvalsdeildinni frá upphafi keppninnar fyrir 30 árum.

„Það þarf að taka risastóra ákvörðun þegar kemur að Ronaldo. Hann er augljóslega óánægður en vandamálið er að það er enginn markaskorari eftir í liðinu ef hann fer. Ég óttast um að liðið gæti endað í neðri hluta stöðutöflunnar ef Ronaldo fer án þess að neinn sóknarmaður komi inn í staðinn," sagði Gary Neville hjá Sky Sports um ástandið.

Ronaldo var markahæsti leikmaður Man Utd á síðustu leiktíð og þriðji markahæstur í úrvalsdeildinni. Félagið endaði þó í sjötta sæti og missti þar með af Meistaradeildinni, sem Ronaldo vill ólmur spila í til að vernda markametið sitt frá Lionel Messi.

Chelsea, Sporting og Atletico Madrid eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við Ronaldo en félagsskipti eru talin ólíkleg á meðan Rauðu djöflarnir heimta að fá borgað fyrir sóknarmanninn, sem er 37 ára og verður 38 í febrúar.


Athugasemdir
banner
banner