Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 17. nóvember 2020 17:30
Magnús Már Einarsson
Elísa: Reynum að keyra á veikleikana
Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Undibúningurinn hefur gengið vel í ljósi aðstæðna, við fengum unganþágu frá stjórnvöldum til þess að æfa sem hefur gert það að verkum að við höfum náð að undirbúa okkur eins vel og kostur er. Á þessum tímum er ekki sjálfsagt að fá að æfa og spila fótbolta og fyrir það erum við mjög þakklátar," segir Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður Vals, en liðið mætir Glasgow City í 2. umferð Meistardeildarinnar á morgun.

Leikurinn fer fram á Origo-vellinum á Hlíðarenda klukkan 14:00 á morgun en undir er sæti í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Elísa vonast til að Valur nái að nýta sér ákveðna veikleika hjá skosku meisturunum.

„Þjálfarateymið er búið að mata okkur upplýsingum um Glasgow og við erum búnar að kortleggja þær vel. Þær eru góðar í mörgu en hafa sína veikleika sem við munum reyna að keyra á. Vonandi náum við bara upp góðum varnarleik sem lið og þannig ná að lokka þær í ákveðnar gildrur sem við teljum að séu þeirra veikleikar," sagði Elísa.

„Ég met möguleikana góða, sennilega 50/50. Þær eru margfaldir skoskir meistarar sem segir margt um liðið. Þær búa að mjög mikilli reynslu og gæðum og fóru mjög langt í keppninni í fyrra sem ég tel vera mikill styrkleiki þegar út í svona leiki er komið og því eru þær verðugur anstæðingur."

Ekki er algengt að mótsleikir fari fram á Íslandi í nóvember og spáð er talsverðu frosti á morgun.

„Ég held það hjálpi okkur ekkert frekar en þeim. Þær eru frá Skotlandi og ég reikna með að þær séu gallharðar. En að öllu gríni slepptu þá gleymast utanaðkomandi aðstæður þegar leikurinn er flautaður á og hvort sem það er rok, rigning eða frost og því kæmi það mér mjög á óvart ef kuldinn hefði áhrif á leikinn," sagði Elísa.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner