Hólmbert Aron Friðjónsson og félagar í Preussen Münster unnu mikilvægan 2-1 sigur á Greuther Fürth í þýsku B-deildinni í dag.
HK-ingurinn kom inn af bekknum seint í leiknum og nokkrum mínútum síðar kom sigurmarkið sem Joshua Mees gerði.
Tímabilið byrjaði illa hjá Preussen en liðið hefur verið á ágætis róli í síðustu þremur leikjum þar sem það hefur unnið tvo og gert eitt jafntefli.
Münster er í 15. sæti með 19 stig og nú fimm stigum fyrir ofan fallsæti.
Kristófer Jónsson var í byrjunarliði Triestina sem tapaði fyrir U23 ára liði Atalanta, 3-1, í C-deildinni á Ítalíu í dag. Triestina er í 17. sæti A-riðils með 19 stig.
Blikinn Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þá í 8-1 stórsigri Sandefjord á Arendal í æfingaleik í Noregi. Tímabilið er að hefjast í Noregi, en Stefán sýndi flotta takta með liðinu á síðustu leiktíð og verður gaman að sjá hvað hann gerir á þessu ári.
Athugasemdir