Ísak Óli Ólafsson, varnarmaður SönderjyskE, gæti verið á leið aftur til uppeldisfélagsins Keflavík á láni fyrir keppni í Pepsi Max-deildinni í sumar. Dr. Football greindi frá þessu í dag.
„FH voru eitthvað inn í samtalinu en Keflavík er víst líklegri æfingastaður. Það er mjög líklegt," sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson í Dr. Football.
Hinn tvítugi Ísak er uppalinn hjá Keflavík en hann fór til SönderjyskE árið 2019.
Fótbolti.net greindi frá því á dögunum að Ísak gæti verið að fara á lán en félög í Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum hafa einig sýnt honum áhuga.
Ísak hefur skorað tvö mörk í átta leikjum með U21 landsliði Íslands en hann var í dag valinn í hópinn sem fer á EM í Ungverjalandi í næstu viku.
Athugasemdir