,,Það má gera allt við markmann. Þá má henda honum niður og skjóta úr horni. Ég lærði reglurnar þannig að í markteig má enginn koma við hann þannig að hann geti farið í boltann.
,,Finnst þér eðlilegt að leikmaður í efstu deild fari á skíði eða snjóbretti? Það er ekki eðlilegt. Hvað ef hann fótbrotnar og getur ekki spilað í sjö mánuði með sínu félagi. Hver á að borga launin?
„Við höfum bætt okkur síðustu fjögur ár í stigastöfnun, stöðugleika og spilamennsku. Við ætlum að gera það líka í ár og ég og leikmenn verðum ekki sáttir ef við endum í 8. sæti," segir Milos Milojevic en Fótbolti.net spáir liðinu 8. sæti í Pepsi-deildinni í sumar. Milos setur markið hærra.
„Ég er ekki feiminn að segja að við ætlum í Evrópusætis baráttu. Það er mest undir okkur komið en líka hinum. Við fengum 30 stig fyrir þremur árum og náðum Evrópusæti en í fyrra fengum við fleiri stig og náðum ekki sæti þar. Þetta fer líka eftir því hvernig deildin spilast."
Nýr Óttar eða Aron að koma upp?
Óttar Magnús Karlsson sló í gegn með Víkingi R. í fyrra en norska félagið Molde keypti hann í vetur. Árið 2014 sló Aron Elís Þrándarson í gegn með Víkingi en Álasund keypti hann. Milos segir að fleiri efnilegir leikmenn séu að koma upp hjá Víkingi.
„Ég ætla ekki að setja pressu á þá með því að nefna nöfnin en ég er með þrjá góða unga leikmenn sem eru í unglingalandsliðunum. Þeir geta sprungið út. Þeir eru með fullri virðingu með svipuð gæði og Óttar og Aron."
„Þetta eru allt góðir strákar en það er spurning hvernig og hversu hratt þeir þroskast. Ef þeir gera það á þessu tímabili þá er ég ánægður en ef ekki þá eru þeir það ungir að þeir geta gert það á næsta tímabili."
FH væri í topp 5 í Serbíu
Milos fór með sína menn í æfingaferð til heimalandsins Serbíu á dögunum. Þar voru leikmenn sem vildu reyna að komast að hjá Víkingi en Milos skoðaði þá ekki.
„Menn voru að bjóða sig vinstri, hægri en ég var harður á að leyfa engum að koma á æfingu. Ég þekki markaðinn og þeir leikmenn sem ég vil fá eru í baráttu í efstu deild. Það er vitleysa að fá leikmenn á æfingar ef ég hef ekki trú á honum," sagði Milos.
Efstu tvær deildirnar í Serbíu eru atvinnumannadeildir en í viðtalinu kemur Milos inn á að þrátt fyrir það sé aðstaðan oft á tíðum mun betri á Íslandi. Hvar væri Víkingur ef liðið myndi spila í úrvalsdeildinni í Serbíu?
„Það er erfitt að meta þetta en ég hugsa að við yrðum í 8-12. sæti af 16 liðum. Ég hugsa að FH myndi enda í topp fimm," sagði Milos.
„Það má gera allt við markmann"
Milos segir að munurinn á dómgæslunni á Íslandi og í Serbíu sé talsvert mikill.
„Ég vil ekki skjóta á dómara en ég skil ekki snertingu á markmann hér á Íslandi. Það má gera allt við markmann. Þá má henda honum niður og skjóta úr horni. Ég lærði reglurnar þannig að í markteig má enginn koma við hann þannig að hann geti ekki farið í boltann. Menn eru að gera blokk hér og við gerum það líka. Það er spilað grófara og líkamlegra hér og það er fínt. Ég fíla það. Það er gott að vita hvar línan liggur og hún sé eins fyrir alla. Þá er ég ánægður."
Milos skaut á leikmenn sína í viðtali eftir tap gegn Fjölni í fyrra en þar sagði hann að leikmenn hefðu verið með fókusinn á Justin Bieber tónleikum en ekki leiknum sjálfum.
„Það eru margir hlutir sem ég skil ekki. Þú getur farið á tónleika með Justin þegar þú ert 35 ára. Þá getur þú farið með ungan son eða dóttur á tónleika. Fótboltinn á Íslandi er hraðmót og annað hvort ertu all-in eða ekki. Ég er ekki að segja að við höfum tapað þessum leik út af þessu en maður hefur þetta alltaf bakvið eyrað. Menn segja að leikmenn í hinum liðunum hafi gert þetta líka en það kemur mér ekki við."
„Ef þú ert áhugamaður, þá ertu með 0 krónur í laun"
Milos vill meina að leikmenn í Pepsi-deildinni eigi að einbeita sér meira að fótboltanum þar sem þeir eru að fá laun hjá félögunum.
„Af því að það er hálf atvinnumennska hér þá lesa leikmenn ekki hluti númer 1, 2 og 3 í samningum sem eru þeirra skuldbindingar. Þeir byrja að lesa staðalsamninginn á punkti fjögur þar sem skuldbindingar félagsins byrja. Oftast gilda þessir samningar í eina átt af því að fólk vill ekki vesen. Í fyrsta skipti hef ég séð það hér að leikmenn fara annað ef þeir ákveða það, þó að þeir séu á samning. Mér finnst það glatað."
„Þegar ég var að spila í Serbíu þá var leikmaður sem var ósáttur og vildi ekki spila. Þá setti félagið hans í árs bann því hann virti ekki samninginn. Hann gat þá ekki æft og ekki skráð sig í neitt lið. Ég er ekki að segja að við þurfum að gera þetta en á einhverjum tímapunkti þarf að setja línu. Það vantar smá kraft og skýra sín hvað við ætlum að gera."
„Leikmenn geta lagt meira á sig. Þetta er þannig heimur að þeir eru alltaf á Snapchat og bæði leikmenn úr mínu liði og öðrum liðum senda á mig og þá sé hvað þeir eru að gera. Finnst þér eðlilegt að leikmaður í efstu deild fari á skíði eða snjóbretti? Það er ekki eðlilegt. Hvað ef hann fótbrotnar og getur ekki spilað í sjö mánuði með sínu félagi. Hver á að borga launin? Leikmenn hugsa að þetta séu í lagi af því að þeir eru áhugamenn. Ef þú ert áhugamaður, þá ertu með 0 krónur í laun. Það eru voða fáir með 0 krónur í laun."
„Allir þeir sem eru yfir lágmarksframfærslu, sem er 165 þúsund krónur á mánuði, eiga að hugsa eins og atvinnumenn. Ef þeir eru ekki sáttir við sín laun þá eiga þeir að reyna að sanna sig til að fá betri laun. Önnur lausn er að banka hjá FH og KR ef þeir telja að þeir séu svona góðir og þriðja lausnin er að fara á vinnumarkaðinn og finna vinnu þar sem þeir fá betur greitt. Ef menn skrifa undir samning þá verða menn að standa og falla með honum."
Spáir Val titlinum
Milos segir að nokkur lið komi til greina í titilbaráttunni en sjálfur spáir hann Valsmönnum titlinum.
„Ég hugsa að Valur verði Íslandsmeistari. Mér finnst þeir vera með sterkan hóp, gott þjálfarateymi og góðar aðstæður. Þeir hafa misst einn góðan leikmann í Kristni Frey en þeir hafa bætt við sig nóg af mönnum. Ég hef ekki séð nógu mikið af þeim en ég hef heyrt að þeir eru góðir. Ég hugsa að þeir verði líklegastir en kannski er það ekki rétt," sagði Milos.
Hér að ofan má hlusta á viðtalið í heild sinni.
Sjá einnig:
Spá Fótbolta.net: 8. sæti - Víkingur R.
Hin hliðin - Viktor Örlygur Andrason
Lögfræðingurinn sem á hátt í hundrað skópör
Athugasemdir