Milos Milojevic, þjálfari Víkings R., var ómyrkur í máli eftir 2-1 tap liðsins gegn Fjölni í Pepsi-deildinni í kvöld. Milos var meðal annars ósáttur við sigurmarkið sem Martin Lund Pedersen skoraði eftir einstaklingsframtak á vinstri kantinum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Fjölnir
„Fyrir mér það óskiljanlegt að maður labbi einn á móti tveimur og skori mark. Báðir menn voru ekki tilbúnir og markmaðurinn er ekki tilbúinn því hann veit hvar hann getur skotið. Ef fókusinn er meira á Bieber en leik þá er þetta þannig," sagði Milos en nokkrir leikmenn úr báðum liðum voru á tónleikum Justin Bieber í gær.
„Þeir voru líka á Bieber í gær en þeir gátu kúplað sig úr þessu og snúið sér að fótboltaleiknum en við ekki. Ég er ekkert að kenna Bieber um. Það vantar herslumuninn. Þeir eru með betri menn í fleiri en einni stöðu og það réði úrslitum í dag."
Dofri Snorrson slapp í gegn í síðari hálfleik og skaut framhjá en Óttar Magnús Karlsson var með honum í þeirri sókn og hefði mögulega getað fengið boltann fyrir opnu marki.
„Í færunum sem við fáum þá var tvisvar hugsað meira um eigið egó heldur en að vinna fyrir liðið. Þegar þú gefur ekki allt í verkefnið sem þú ert í þá uppskerðu ekkert."
„Það kom í ljós að gæðin eru ekki meiri og þeir áttu sigurinn skilið," sagði Milos einnig ósáttur í viðtalinu hér að ofan.
„Það eru menn sem ætla sér mikið en gera lítið og hanga í liðinu á alls konar ástæðum. Þetta er engum öðrum að kenna en mér."
„Ég er óánægður með sjálfan mig. Þetta er engum öðrum að kenna nema mér. Ég valdi þennan hóp og ég þjálfa þennan hóp og set menn í liðið. Ég get ekki kennt neinum um. Þeir þurfa að laga ákveðna hluti. Ef þeir gera það þá er það fínt en ef ekki þá er það líka fínt. Þeir velja sjálfir hvort þeir vilja vera fótboltamenn eða finna sér nýja vinnu," sagði Milos.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir