Arne Slot þjálfari Liverpool heldur enn í vonina um að halda í bakvörðinn Trent Alexander-Arnold sem virðist vera á leið til Real Madrid á frjálsri sölu.
Alexander-Arnold rennur út á samningi í sumar og virðist eiga eftir að taka ákvörðun um framtíðina, en er með samningstilboð á borðinu frá bæði Liverpool og Real Madrid.
Fyrir nokkru síðan var útlit fyrir að Mohamed Salah og Virgil van Dijk myndu yfirgefa félagið á frjálsri sölu en þeir eru báðir búnir að gera nýja samninga. Þá er Alexander-Arnold einn eftir.
„Við erum búnir að semja við tvo og eigum eftir að semja við einn. Við tjáum okkur ekki um það fyrr en því er lokið. Viðræður eru í gangi og því tjáum við okkur ekki opinberlega," sagði Slot.
„Trent er að koma aftur úr meiðslum. Hann æfði með okkur í gær og í hvert skipti sem hann æfir eða spilar þá leggur hann allt í sölurnar. Hann hefur verið að vinna hörðum höndum að því að koma úr þessum meiðslum og mun sýna okkur aftur hversu frábær fótboltamaður hann er.
„Allir sem horfa á fótbolta vita hversu mikilvægur hann hefur verið fyrir þetta félag. Við verðum að bíða og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér."
Athugasemdir