Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 19. febrúar 2021 23:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Sem uppalinn KR-ingur var alltaf markmiðið að festa sig í sessi í liðinu"
Dreymir um atvinnumennsku
Vill verða einn af bestu bakvörðum deildarinnar
Vill verða einn af bestu bakvörðum deildarinnar
Mynd: Keflavík
Mig minnir reyndar að það hafi verið Ægir Jarl, góðvinur minn, sem hafi sagt að ég væri dónalegur og orðljótur.
Mig minnir reyndar að það hafi verið Ægir Jarl, góðvinur minn, sem hafi sagt að ég væri dónalegur og orðljótur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við vorum með gott lið og frábæran þjálfara
Við vorum með gott lið og frábæran þjálfara
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég lærði hversu mikilvægt það er að halda hausnum í lagi þegar á móti blæs
Ég lærði hversu mikilvægt það er að halda hausnum í lagi þegar á móti blæs
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Á þessu eina og hálfa ári með Gróttu upplifði ég annars vegar mikla velgengni og hins vegar mikið mótlæti.
Á þessu eina og hálfa ári með Gróttu upplifði ég annars vegar mikla velgengni og hins vegar mikið mótlæti.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Ég myndi segja að langtímamarkmið mitt væri að festa mig í sessi sem einn af betri bakvörðum deildarinnar. Ef við lítum enn lengra er auðvitað draumurinn að fara út í atvinnumennsku."

Ástbjörn Þórðarson gekk í raðir Keflavíkur á dögunum frá uppeldisfélagi sínu KR. Ástbjörn er 21 árs gamall leikmaður sem var í fyrra að láni hjá Gróttu. Ástbjörn lék sinn fyrsta deildarleik með KR árið 2016 og lék alls ellefu deildarleiki á árunum 2016, 2017 og 2019.

Hann hefur á undanförnum árum verið að láni hjá ÍA, Víkingi Ólafsvík og svo Gróttu eins og áður hefur komið fram. Ástbjörn á þá að baki tíu unglingalandsleiki. Fótbolti.net hafði samband við Ástbjörn á dögunum og ræddi við hann um skiptin til Keflavíkur og ýmislegt annað.

Leysir allar stöður en hægri bakvörðurinn uppáhalds
Byrjum á að kynnast Ástbirni aðeins sem leikmanni, hvaða stöður hefur hann verið að leysa síðustu ár og hver er hans uppáhalds staða.

„Ég hef verið það heppinn að hafa fengið að prófa að spila nánast allar stöður á vellinum nema markmanninn. Að mínu mati eru kanturinn og bakvörðurinn báðum megin þær stöður sem ég get spilað best. Ég segi stundum að mér sé sama hvar ég spili svo lengi sem ég spili, en mín uppáhalds staða er samt alltaf hægri bakvörðurinn," sagði Ástbjörn, meira um hann sem leikmann seinna í viðtalinu.

Hefur lært mikið af harðri samkeppni
Hvernig horfir tíminn hjá KR við Ástbirni, eru það vonbrigði að eiga ekki fleiri leiki með uppeldisfélaginu á þessum tímapunkti?

„Sem uppalinn KR-ingur þá var það alltaf markmiðið að ná að festa mig í sessi í KR liðinu. Ég var ungur þegar ég byrjaði að æfa með meistaraflokknum, komst í hópinn og spilaði mína fyrstu leiki. Þó svo að ég hafi talið mig tilbúinn fyrir þónokkru síðan að fá stærra hlutverk þá var ég alltaf í samkeppni við leikmenn sem höfðu talsvert meiri reynslu en ég og eru taldir með betri leikmönnum deildarinnar. Ég hef lært mikið af því að vera í samkeppni og æfa með svona góðum leikmönnum og hefur það gert mig að betri leikmanni og mun klárlega nýtast mér."

Upplifði bæði mikla velgengni og mikið mótlæti
Voru lánin til ÍA og Víkings vel heppnuð?

„Tímabilið 2018 fer ég á lán til ÍA. Þar spila ég ekki mikið og á endanum er ég þar einungis í einn mánuð, þannig það má kannski segja að það hafi ekki verið vel heppnað. Á sama tímabili fer ég svo á lán til Víkings Ólafsvíkur. Þar voru móttökurnar góðar og gengu hlutirnir strax mjög vel. Ég var fljótur að komast inn í hópinn og vann mig strax inn í liðið. Við vorum með gott lið og frábæran þjálfara, Ejub, sem skilaði liðinu alla leið í undanúrslit í bikar þar sem við töpuðum í vítaspyrnukeppni og vorum við í baráttu um að komast upp í Pepsi deildina alveg þangað til í lok móts."

Hvernig voru tímabilin með Gróttu?

„Sumarið 2019 fær Óskar Hrafn mig til Gróttu á miðju tímabili. Það var geggjuð upplifun að fá að vera partur af þessu liði sem vann Inkasso deildina og var það sérstaklega gaman að gera það með mörgum af mínum bestu vinum. Sumarið eftir var ekki eins sigursælt en það var mjög lærdómsríkt. Á þessu eina og hálfa ári með Gróttu upplifði ég annars vegar mikla velgengni og hins vegar mikið mótlæti. Ég lærði hversu mikilvægt það er að halda hausnum í lagi þegar á móti blæs og hversu mikilvægt það er að missa ekki fókus, hafa trú á sjálfum sér og því sem maður er að gera. Þetta tímabil í Pepsi Max -deildinni gerði mig reynslunni ríkari og er ég klárlega tibúnari í slaginn með Keflavík í sumar fyrir vikið."

Fannst kominn tími á stærra hlutverk
Hvernig var aðdragandinn að skiptunum til Keflavíkur?

„Aðdragandinn að þessu var ekkI langur. Mér fannst bara vera kominn tími á það að fara í lið þar sem ég fengi að spila stærra hlutverk. Ég settist niður með Rúnari og Bjarna og þótt þeir hefðu verið til í að halda mér þá sáu þeir líka að þetta væri rétta skrefið fyrir mig."

Hvernig seldu þeir Siggir Raggi og Eysteinn honum Ástbirnir að Keflavík væri rétta skrefið?

„Siggi og Eysteinn þurftu í rauninni ekki mikið að selja mér þetta. Ég mætti á nokkrar æfingar og keppti leik á móti FH og fann strax að það var mikill metnaður í þjálfarateyminu og liðinu til að gera vel. Keflavík er með ungan og skemmtilegan hóp sem spilar góðan fótbolta og er ég mjög sáttur með þetta skref."

Hvernig líst Ástbirni á komandi tímabil með félaginu?

„Mér líst mjög vel á tímabilið framundan og er virkilega spenntur fyrir því. Hópurinn er fullur af ungum og hungruðum strákum eins og sjálfum mér sem vilja sýna sig og sanna. Það í bland við eldri leiðtoga og góða þjálfara mun held ég skila okkur vænum árangri. Mín persónulegu markmið eru að spila sem flesta leiki, bæta mig sem leikmann og gera allt sem ég get til að hjálpa liði mínu til sigurs í hverjum einasta leik."

Dreymir um atvinnumennsku - Mikil vinna fyrir höndum
Talandi um markmið, er Ástbjörn með einhver langtímamarkmið?

„Ég myndi segja að langtímamarkmið mitt væri að festa mig í sessi sem einn af betri bakvörðum deildarinnar. Ef við lítum enn lengra er auðvitað draumurinn að fara út í atvinnumennsku. Enn er mikil vinna fyrir höndum og þarf ég að halda áfram að bæta mig sem leikmaður ef ég ætla að ná þessum markmiðum. En ég hef mikla trú á sjálfum mér og veit að ef ég legg hart að mér og held fókus þá séu mér allir vegir færir."

Var með þá þrjá í rassvasanum
Ástbjörn hefur þrisvar sinnum verið nefndur sem mest óþolandi andstæðingurinn hjá öðrum í hinni hliðinni. Er það eitthvað sem hann leggur upp með, að vera óþolandi inn á velli?

„Nei, það er alls ekki neitt sem ég legg upp með. Ætli ég hafi ekki bara verið með þessa þrjá leikmenn í rassvasanum."

Sagður af einum vera bæði orðljótur og dónalegur, er eitthvað til í því?

„Mig minnir reyndar að það hafi verið Ægir Jarl, góðvinur minn, sem hafi sagt að ég væri dónalegur og orðljótur. Ég kannast nú ekkert við það en er vissulega með mikið keppnisskap sem getur náð tökum á mér í hita leiksins," sagði Ástbjörn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner