
HK er búið að komast að samkomulagi við Þrótt Vogum um kaup á Jóhanni Þór Arnarssyni.
Jóhann Þór er fæddur 2002 og hefur spilað í Vogunum síðustu tvö ár, en þar áður lék hann með Keflavík og Víði eftir að hafa alist upp hjá FH.
Jóhann Þór gerir þriggja ára samning við HK og mun því reyna fyrir sér í næstefstu deild. Hann á tíu leiki að baki þar eftir dvöl sína hjá Keflavík.
Jóhann skoraði 12 mörk í 2. deildinni í fyrra og var valinn í lið ársins. Honum hefur ekki gengið vel að skora í tveimur efstu deildum íslenska boltans en vonast til að breyta því á komandi sumri.
„Það er mikil ánægja með að Jóhann Þór sé kominn í rauðu og hvítu treyjuna og hlökkum við til að fylgjast með honum í sumar," segir meðal annars í tilkynningu frá HK. „HK vill þakka Þrótti fyrir einstaklega fagmannleg vinnubrögð og góð samskipti í tengslum við félagasskipti Jóhanns."
Athugasemdir