Ágúst Eðvald Hlynsson hefur verið í byrjunarliði Breiðabliks í fyrstu tveimur umferðum Bestu deildarinnar. Hann var tekinn af velli í leiknum gegn HK í fyrstu umferðinni og var settur í flokkinn "vondur dagur" í skýrslunni eftir leik.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 2 Breiðablik
Margir hafa velt því fyrir sér hvað það væri sem Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sæi í Ágústi. Umræðan hefur verið á þá leið að Ágúst sé leikmaður sem er mjög duglegur, sé með háar hlaupatölur en það vantaði upp á ákvarðanatökur og mörk og stoðsendingar í hans leik.
Ágúst er 23 ára gamall og hefur til þessa þegar spilað fyrir mörg af stærstu félögum landsins. Hann lék með Val á síðasta tímabili, FH fyrri hluta tímabilsins 2021 og Víkingi þar á undan. Hann er uppalinn hjá Þór og Breiðabliki en lék einnig með unglingaliðum Norwich og Bröndby. Hann var samningsbundinn Horsens þegar Breiðablik fékk hann til sín í vetur.
Ágúst átti góðan leik gegn Val á sunnudag, sóknarlega var hann óheppinn að minnsta kosti tvisvar að liðsfélagar hans nýttu ekki góð færi eftir undirbúning frá sér. Eftir leik var Óskar spurður hvað Ágúst væri að koma með í liðið.
„Horfðiru á leikinn? Hann kemur með gríðarlegan dugnað, síðan hann kom finnst mér hann hafa bætt gríðarlega mikið ákvarðanatöku, missir boltann sjaldnar, góður að keyra á menn, með ofboðslegan drifkraft, vinnur vel í pressu, skilar sér vel til baka. Hann er hungraður og kemur inn í góðan æfingakúltúr, hann er einn af þeim fyrstu sem mæta og er einn af þeim síðustu sem fara."
„Hann var ekki í liðinu sex leiki í röð á undirbúningstímabilinu, hann kom aldrei inn á skrifstofu, kom aldrei að væla. Hann bretti upp ermarnar, æfði betur og gerði meira. Svo uppskera menn og ég er gríðarlega ánægður með hann. Mér fannst Ágúst frábær í dag. Hann er hluti af þessum nýju leikmönnum sem þurfa að keyra upp hungrið, svo séum ekki værukærir," sagði Óskar.
Athugasemdir