Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 19. júlí 2024 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stelpur í U19 liði Íslands með meira en milljón áhorf á TikTok
Emelía Óskarsdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir.
Emelía Óskarsdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir.
Mynd: Skjáskot - TikTok
Það er óhætt að segja að stelpurnar í U19 landsliði Íslands hafi slegið í gegn á samfélagsmiðlinum TikTok í kjölfarið á myndbandi sem þær birtu á dögunum.

Ísabella Sara Tryggvadóttir, leikmaður Vals og U19 landsliðsins, birti myndbandið á síðu sinni en það var tekið upp eftir leik Íslands og Svíþjóðar í vikunni.

Leiknum var aflýst eftir um klukkutíma vegna veðurs. Það rigndi gríðarlega fyrir leik og á meðan á leik stóð. Völlurinn var allur á floti og óleikfær. Svíþjóð hafði komist yfir, en Emelía Óskarsdóttir jafnaði metin áður en flautað var af.

Stelpurnar ákváðu að hafa gaman þó leikurinn hafði verið flautaður af og settu saman myndband sem hefur vakið mikla athygli.

Í myndbandinu leika þær eftir fögn enskra landsliðsmanna og taka svo sín eigin fögn í rigningunni. Bergdís Sveinsdóttir, leikmaður Víkings, hendir meðal annars í orminn fræga. Hljóðið undir í myndbandinu var klippt saman eftir sigur Englands á Sviss í vítaspyrnukeppni á EM.

Þegar þessi frétt er skrifuð hefur þetta skemmtilega myndband fengið 237 þúsund læk og 1,6 milljón áhorf en það var birt fyrir þremur dögum. Opinber TikTok reikningur enska landsliðsins er á meðal þeirra sem hafa sett athugasemd undir myndbandið. „Ormurinn er grjótharður," skrifar reikningur enska landsliðsins, sem er með 9,1 milljón fylgjenda á TikTok, við myndbandið.

Hægt er að skoða myndbandið með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner