Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   sun 19. október 2014 20:30
Þorgrímur Þráinsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Að láta verkin tala
Þorgrímur Þráinsson
Þorgrímur Þráinsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Pétursson og Ólafur Jóhannesson.
Pétur Pétursson og Ólafur Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í ljósi góðs árangurs landsliðsins í knattspyrnu hafa leikmenn verið töluvert í sviðsljósinu, sem eðlilegt er. Fjölmiðlamenn hafa spurt um ástæður þessa góða árangurs og einstaka leikmaður hefur fallið í þann djúpa pytt að kasta rýrð á fyrrum þjálfara liðsins, Ólaf Jóhannesson og Pétur Pétursson, meðvitað eða ómeðvitað, líklega til þess að koma einhverjum samanburði á framfæri. Það er eðli fjölmiðils að leita frétta, búa til forvitnilegar fyrirsagnar enda samkeppnin hörð á þessum vettvangi. Og fjölmiðli er nokk sama þótt leikmenn missi eitthvað óheppilegt út úr sér því það getur orðið að krassandi fyrirsögn. Gildir þá einu hvort rætt er við leikmenn á Íslandi eða á erlendum vettvangi, eins og dæmin sanna.

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson eru frábærir þjálfarar og fagmenn fram í fingurgóma. Það voru Ólafur Jóhannesson og Pétur Pétursson líka en á annan hátt því hver þjálfari hefur sinn stíl, sjarma, nærveru, afstöðu til leikaferðar, reynslu og svo mætti lengi telja.

Ég er svo heppinn að hafa verið í landsliðsnefnd í tæp 8 ár og unnið með þessum fjórmenningum, farið í flestar ferðir og þar af leiðandi verið á flestum æfingum og fundum. Allir þjálfararnir eiga það sameiginlegt að hafa ástríðu fyrir fótbolta og ígrunda hvert smáatriði til þess að árangur liðsins geti orðið sem bestur. Í ljósi þess kemur árangurinn í dag mér ekkert á óvart því að þessu hefur verið unnið síðastliðin sjö, átta ár með margvíslegum og markvissum hætti.

Reglur hafa alltaf verið skýrar. Þegar unnið er með leikmönnum sem hafa atvinnu af því að spila fótbolta og gera það listavel, þarf ekki sífellt að tíunda reglurnar því leikmönnum eru þær ljósar. Þegar það stendur á töflu á hótelganginum að leikmenn eigi að vera komnir í ró á miðnætti stendur ekki með rauðum stöfum að það sé bannað að vera á ferli á nóttunni. Hvort leikmenn brjóti ,,óskrifaðar“ reglur eða ekki hafa þjálfarar ekkert með að gera og vita þar af leiðandi í fæstum tilfellum af því. Sömu reglur voru viðhafðar í tíð Ólafs og Péturs og sem betur fer treystu þeir leikmönnum eins og Lars og Heimir gera í dag. Hvað leikmenn gera strax eftir að landsliðsverkefni (leik) lýkur, heima hjá sér eða annars staðar, er ekki á ábyrgð þjálfaranna. Langflestir leikmenn eru sjálfum sér til sóma utan vallar sem innan, að nóttu sem degi, enda stefna þeir á toppinn.

Flestir fótboltaáhugamenn vita að Ólafur og Pétur gáfu okkar bestu mönnum í dag tækifæri og kynslóðaskipti voru að eiga sér stað fyrir sex, sjö árum. Úrslit sumra leikja voru ,,stöngin út“ í staðinn fyrir ,,stöngin inn“ og hefði tuðran lent oftar inni hefði umræðan síðar án efa orðið á annan veg. Hafi einhverjir leikmenn undir stjórn Ólafs og Péturs komið heim í landsleiki með það að markmiði að fara á pöbbinn að leik loknum, eða eingöngu til að ,,hitta strákana“ sýnir það algjörlega þeirra hugarfar, ekki þjálfaranna. Að væna aðra leikmenn um að hafa þetta undarlega hugarfar að leiðarljósi, að gefa sig ekki í landsliðsverkefni, er ódrengilegt.

Það segir sig sjálft að því oftar sem leikmenn hittast, því fleiri leiki sem þeir spila saman og því reynslumeiri sem þeir verða, því betri ætti árangur landsliðsins að verða. Vitanlega veltur árangurinn líka á dagsforminu, meiðslum lykilmanna og ótal smáatriðum og þess vegna eiga stórkostleg lið slæma daga eins og dæmin sanna. Íslensku landsliðsmennirnir eru stálheppnir að hafa frábæra þjálfara sem ætlar sér til Frakklands 2016 og ennfremur ótrúlega óeigingjarna sjúkraþjálfara, nuddara og lækna, svo ekki sé talað um búningastjórann dásamlega. Allir leggja þessir einstaklingar nótt við dag til að halda leikmönnum í sem besta standi til þess að árangurinn innan vallar verði sem bestur. Það eitt skiptir mestu máli og þjóðin gerir kröfur til þess að leikmenn leggi sig fram.

Þeir landsliðsmenn sem ég hef kynnst á síðustu 8 árum eru flottir en ólíkir persónuleikar, metnaðargjarnir og góðir drengir. Eins og gengur eru leikmenn ekki alltaf valdir í hópinn en góður þjálfari sagði eitt sinn: ,,Strákar, þið veljið ykkur sjálfa í liðið með eigin frammistöðu.“

Þannig er það í lífinu almennt -- við uppskerum eins og við sáum. Og þess vegna eiga menn að sýna hógværð og auðmýkt, setja undir sig hausinn og vinna sig inn í liðið að nýju en spara stóru orðin.
Athugasemdir
banner
banner
banner