Chelsea í bílstjórasætinu um Rogers - Forest leitar að stjóra - Þriggja manna listi Real Madrid
banner
   sun 19. október 2025 16:11
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KR getur enn bjargað sér - ÍA öruggt áfram í deildinni
Eiður Gauti skoraði dýrmætt sigurmark KR
Eiður Gauti skoraði dýrmætt sigurmark KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallgrímur Mar skoraði tvö og annað þeirra fyrir aftan miðju
Hallgrímur Mar skoraði tvö og annað þeirra fyrir aftan miðju
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ágúst Eðvald bjargaði stigi fyrir Vestra
Ágúst Eðvald bjargaði stigi fyrir Vestra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar eiga enn möguleika á að bjarga sér frá falli eftir að hafa unnið ÍBV, 2-1, í næst síðustu umferð Bestu deildar karla í dag. KA er komið í bílstjórasætið um Forsetabikarinn eftir 5-1 stórsigur á ÍA á Akureyri.

Öll augu voru á Aftureldingu, KR og Vestra sem berjast öll fyrir sæti sínu í deildinni.

Afturelding mætti Vestra á Malbikstöðinni við Varmá og sást það strax hversu mikilvægur leikur þetta var fyrir bæði lið.

Heimamenn voru kannski í við hættulegri en færin voru fá í fyrri hálfleiknum og kom besta færið ekki fyrr en lítið var eftir af hálfleiknum er Hrannar Snær Magnússon skaut boltanum í hliðarnetið úr ákjósanlegri stöðu.

Í síðari hálfleiknum settu Mosfellingar enn meiri pressu á Vestra og fengu fullt af góðum færum en Guy Smit var að verja allt sem kom í áttina að honum.

Hann kom þó engum vörnum við á 76. mínútu er Georg Bjarnason kom með bolta úr djúpinu og yfir Aketchi Kassi og varnarmanninn og til Hrannars sem skoraði með föstu skoti.

Allt stefndi í sigur Aftureldingar sem hefði reynst þeim ótrúlega mikilvægur, en þegar komið var seint í uppbótartíma jafnaði Ágúst Eðvald Hlynsson er hann hirti frákast í teignum.

Þetta sendi Aftureldingu í neðsta sæti með 27 stig en Vestri er enn fyrir ofan fallsæti með 29 stig. Vestri og KR mætast í hreinum úrslitaleik um sæti í deildinni í lokaumferðinni, en bæði lið þurfa þar sigur.

Lífsnauðsynlegur sigur KR sem getur enn bjargað sér

KR-ingar unnu dýrmætan 2-1 sigur á ÍBV á KR-vellinum og eru nú búnir að stilla upp úrslitaleik fyrir lokaumferðina.

Eyjamenn fengu langbesta færi fyrri hálfleiksins strax á 8. mínútu er Oliver Heiðarsson slapp aleinn í gegn, en Halldór Snær Georgsson gerði vel að loka og varði skotið örugglega.

KR-ingar fóru að banka á dyrnar þegar leið á leikinn og á 24. mínútu komst Aron Sigurðarson nálægt því að skora er hann hamraði aukaspyrnu af 25 metra færi í þverslá.

Síðustu mínútur hálfleiksins fengu KR-ingar nokkur góð færi til að taka forystuna. Luke Rae átti skot rétt framhjá og þá skallaði Aron Sig framhjá markinu.

Eiður Gauti Sæbjörnsson átti fínasta skallafæri undir lok hálfleiksins eftir fyrirgjöf Arons, en Marcel Zapytowski vandanum vaxinn í markinu.

Markalaust í hálfleik en í þeim síðari brast stíflan. Heimamenn fengu vítaspyrnu á 54. mínútu er Zapytowski hrinti Guðmundi Andra Tryggvasyni í teignum í hornspyrnu. Klaufalegt hjá markverðinum og var það Aron Sig sem skoraði úr vítaspyrnunni.

Léttir fyrir KR en aðeins tveimur mínútum síðar köstuðu KR-ingar forystunni frá sér. Sverrir Páll Hjaltested kom með fyrirgjöf sem Halldór Snær missti frá sér og til Oliver Heiðars sem þrumaði boltanum í netið.

Tvö mistök frá markmönnunum tveimur á stuttum tíma og allt orðið jafnt.

Heimamenn svöruðu ágætlega fyrir sig og var staðan orðin 2-1 á 63. mínútu. Hjalti Sigurðsson kom með frábæran bolta á Eið Gauta sem stýrði boltanum yfir Zapytowski og í fjærhornið.

Þorlákur Árnason, þjálfari Eyjamanna, var nokkrum mínútum síðar rekinn upp í stúku eftir að mótmæla við dómarana. „Veistu hvað leikmaðurinn sagði við mig?“ sagði og spurði hann fjórða dómara leiksins.

Matthias Præst fékk tvö hörkufæri til að tryggja sigur KR-inga, en Zapytowski varði frábærlega. Fyrst úr markteignum og svo annað eftir hornspyrnu.

Það þurfti þó ekki og hafði KR 2-1 sigur. Ótrúlega mikilvæg þrjú stig í fallbaráttunni en KR er nú í næst neðsta sæti með 28 stig og þarf að vinna Vestra í lokaumferðinni til að bjarga sér endanlega frá falli. ÍBV er áfram með 33 stig en dettur niður í annað sæti neðri hlutans, nú þremur stigum á eftir KA.

KA vann síðasta heimaleikinn með stæl

KA pakkaði ÍA saman, 5-1, í síðasta heimaleik Akureyringa á þessu tímabili.

Gestirnir fengu draumabyrjun á 7. mínútu er Baldvin Þór Berndsen fékk boltann af 30 metrum eftir klafs í vítateig KA. Hann þrumaði boltanum af öllu afli í samskeytin og ekkert sem Jonathan Rasheed, markvörður KA, gat gert í þessu bylmingsskoti.

Það tók Akureyringa aðeins fjórar mínútur að jafna og komast yfir í leiknum.

Birgir Baldvinsson jafnaði metin á 18. mínútu eftir sendingu frá Bjarna Aðalsteinssyni. Birgir fór framhjá Rúnari Má Sigurjónssyni, komst einn gegn Árna Marinó Einarssyni og setti boltann í netið.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir á 22. mínútu. Andri Fannar Stefánsson, sem var mögulega að spila sinn síðasta heimaleik í KA-treyjunni, kom með háan bolta inn á teiginn þar sem Gísli Laxdal Unnarsson var sofandi á verðinum. Hallgrímur Mar tók boltann niður og lagði hann framhjá Árna í markinu.

Rasheed varði frábærlega í tvígang frá Ómari Birni Stefánssyni og síðan Viktori Jónssyni rétt áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Stórar vörslur hjá Svíanum.

KA-menn náðu að innsigla sigurinn í þeim síðari en þegar hálftími var eftir kom þriðja markið. Bjarni vippaði boltanum inn fyrir á Hallgrím sem kom boltanum þvert fyrir markið og á Ingimar Torbjörnsson Stöle sem skoraði og forystan komin í tvö mörk.

Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fjórða markið á 83. mínútu eftir góðan undirbúning Snorra Kristinssonar og tveimur mínútum síðar skoraði Hallgrímur Mar stórbrotið mark með skoti fyrir aftan miðju.

Ingimar vann boltann á eigin vallarhelming, kom honum til hliðar á Hallgrím sem skaut boltanum yfir Árna Marinó og í netið. Svakalegt mark í öruggum sigri KA-manna.

KA er á toppnum í neðri hlutanum með 36 stig og komið í bílstjórasætið í baráttunni um Forsetabikarinn en það mætir ÍBV í hreinum úrslitaleik um bikarinn í lokaumferðinni. Skagamenn eru áfram í 3. sæti neðri hlutans með 31 stig. Eftir jöfnunarmarkið í Mosfellsbæ er ljóst að ÍA heldur sér í deildinni.

Afturelding 1 - 1 Vestri
1-0 Hrannar Snær Magnússon ('76 )
1-1 Ágúst Eðvald Hlynsson ('96 )
Lestu um leikinn

KA 5 - 1 ÍA
0-1 Baldvin Þór Berndsen ('7 )
1-1 Birgir Baldvinsson ('18 )
2-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('22 )
3-1 Ingimar Torbjörnsson Stöle ('66 )
4-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('83 )
5-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('85 )
Lestu um leikinn

KR 2 - 1 ÍBV
1-0 Aron Sigurðarson ('55 , víti)
1-1 Oliver Heiðarsson ('57 )
2-1 Eiður Gauti Sæbjörnsson ('63 )
Rautt spjald: Þorlákur Már Árnason, ÍBV ('68) Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner