Íslendingalið Elfsborg vann stóran og langþráðan 5-1 sigur á Öster í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Elfsborg hafði ekki unnið deildarleik síðan í byrjun ágúst og dottið úr baráttu um Evrópusæti.
Í raun ótrúlegt að Oscar Hiljemark, þjálfari liðsins, hafi enn verið í starfinu en hann fékk traustið til að snúa gengi liðsins við og það tókst.
Júlíus Magnússon lagði upp þriðja mark Elfsborg í stórum sigri liðsins á Öster, en hann og Ari Sigurpálsson voru í byrjunarliði heimamanna í leiknum.
Elfsborg er í 8. sæti með 40 stig, átta stigum frá Evrópusæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Mikael Neville Anderson var á skotskónum með Djurgården sem tapaði fyrir GAIS, 3-2.
Landsliðsmaðurinn skoraði síðasta mark leiksins er hann minnkaði muninn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Þetta var þriðja mark hans síðan hann gekk í raðir félagsins frá AGF.
Djurgården er í 7. sæti með 42 stig.
Nökkvi Þeyr Þórisson spilaði síðustu mínúturnar í 2-0 sigri Spörtu Rotterdam á Groningen. Brynjólfur Andersen Willumsson, besti maður Groningen á tímabilinu, var ekki með vegna meiðsla.
Groningen er í 5. sæti með 15 stig en Sparta í 10. sæti með 13 stig.
Ísak Snær Þorvaldsson kom inn af bekknum og lagði upp mark í 3-3 jafntefli Lyngby gegn Aarhus Fremad í dönsku B-deildinni.
Framherjinn kom inn á þegar hálftími var eftir og átti stóran þátt í endurkomu liðsins sem minnkaði muninn þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka áður en heimamenn í Lyngby jöfnuðu í uppbótartíma.
Lyngby er í öðru sæti með 23 stig eftir þrettán umferðir.
Daniel Dejan Djuric og Logi Hrafn Róbertsson komu báðir inn af bekknum hjá Istra 1961 sem tapaði fyrir Hajduk Split, 3-0, í króatísku deildinni.
Logi kom inn á í hálfleik en Daniel þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Istra er í 6. sæti með 12 stig.
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þrettánda deildarmark sitt er Sandefjord vann Molde, 3-1, í norsku úrvalsdeildinni.
Blikinn skoraði annað mark Sandefjord undir lok fyrri hálfleiks og er nú kominn aftur í baráttuna um gullskóinn en hann er aðeins fjórum mörkum frá efsta manni þegar liðið á sex leiki eftir.
Sandefjord er í 5. sæti með 37 stig og á enn möguleika á að ná í Evrópusæti.
Athugasemdir