Semenyo og Neves orðaðir við Man Utd - Maresca á blaði hjá City - Atletico hefur áhuga á Rashford
banner
   fös 19. desember 2025 17:31
Ívan Guðjón Baldursson
Hrannar Snær til Kristiansund (Staðfest)
Mynd: Kristiansund
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding er búin að staðfesta brottför Hrannars Snæs Magnússonar frá félaginu. Hann gengur til liðs við Kristiansund í Noregi.

Hrannar Snær er 23 ára kantmaður sem hefur verið algjör lykilmaður í liði Mosfellinga á síðustu tveimur árum. Hann hreif sérstaklega í Bestu deildinni í sumar þar sem hann skoraði 12 mörk í 26 leikjum, auk þess að setja eitt mark í þremur bikarleikjum. Þrátt fyrir mikla markaskorun Hrannars féll Afturelding beint aftur niður í Lengjudeildina.

Hrannar Snær var valinn besti leikmaður tímabilsins hjá Aftureldingu og hefur verið mikill áhugi á honum undanfarnar vikur bæði innanlands og erlendis.

Hrannar fer að lokum til Kristiansund sem leikur í efstu deild norska boltans. Liði endaði rétt fyrir ofan fallsvæðið í ár, með 34 stig úr 30 umferðum.

„Ég kveð Aftureldingu með söknuði, en fyrst og fremst með miklu þakklæti fyrir frábæran tíma. Þetta er magnaður klúbbur þar sem stuðningsmenn og allt bæjarfélagið standa þétt við bakið á manni,” sagði Hrannar eftir undirskriftina í Noregi.

Hrannar er alinn upp á Norðurlandi og lék fyrir yngri flokka Dalvíkur/Reynis/KF og KA.

Hann lék með meistaraflokki hjá KF í nokkur ár og reyndi einnig fyrir sér með KH á Hlíðarenda, auk þess að stoppa við á Selfossi yfir eitt tímabil, áður en hann gekk til liðs við Aftureldingu í fyrra.


Athugasemdir
banner
banner