Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, hefur sent hlýjar samúðarkveðjur á fjölskyldu Åge Hareide, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, en hann lést í dag eftir stutta baráttu við heilakrabbamein.
Ólafur starfaði með Åge hjá KSÍ á þessu eina og hálfa ári sem Norðmaðurinn var við stjórnvölinn hjá karlalandsliðinu. Ólafur þjálfaði þá yngri landslið Íslands og meðal annars U21 árs landsliðið og var því í miklum samskiptum við Norðmanninn.
Hann gerði góða hluti með íslenska liðið áður en hann hætti störfum í nóvember á síðasta ári. Í sumar greindist hann með heilakrabbamein, en tapaði þeirri baráttu í dag.
Ólafur lýsir Åge sem frábærum manni og þakkar honum fyrir hans störf í þágu íslenska fótboltans.
„Hrikalegar fréttir. Maður vissi af veikindum hans og búið að gerast mjög hratt. Það var sjokkerandi að fá þessi tíðindi í dag og maður sendir strauma til fjölskyldu hans því þau eiga örugglega um sárt að binda. Frábær maður og persóna. Þetta eru leiðinlegar fréttir og óska ég fjölskyldu hans velfarnaðar og þökkum honum fyrir hans störf fyrir íslenskan fótbolta,“ sagði Ólafur Ingi um Hareide.
Athugasemdir



