fim 20. janúar 2022 12:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Selma Sól til Rosenborg (Staðfest) - „Rétta skrefið fyrir mig"
Í landsleik síðasta haust.
Í landsleik síðasta haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selma Sól Magnúsdóttir er gengin í raðir norska félagsins Rosenborg. Selma er keypt frá Breiðabliki þar sem hún er uppalin og skrifar undir tveggja ára samning við Rosenborg.

Selma er 23 ára gömul og getur bæði spilað á miðjunni og kantinum. Hún er landsliðskona og á að baki sextán A-landsleiki.

Rosenborg er topplið í norska kvennaboltanum og stefnir á norska titilinn og sæti í Meistaradeildinni á komandi tímabili, liðið endaði í 2. sæti á síðasta tímabili. Rosenborg býst við því að Selma mæti til Þrándheims í vikunni.

Hún var, eins og greint var frá hér á Fótbolti.net, á reynslu hjá félaginu í síðustu viku.

„Hún sýndi hæfileika sem við getum ræktað enn frekar. Hún hefur rétta hugarfarið og virðist geta aðlagað sig fljótt,“ sagði Steinar Lein, þjálfari Rosenborg, í viðtali sem birt var á heimasíðu Rosenborg.

„Ég er hrifin af öllu hjá félaginu og þá sérstaklega hvernig RBK liðið hefur vaxið síðustu ár. Ég náði líka vel saman við stelpurnar í liðinu. Ég tel að þetta sé rétta skrefið fyrir mig til að verða betri knattspyrnukona," sagði Selma Sól.


Athugasemdir
banner
banner
banner