
Keflavík er með einn mest spennandi leikmanninn í Bestu deild kvenna í sínum röðum. Kínverska vonarstjarnan Linli Tu gekk í raðir Keflavíkur eftir síðustu leiktíð.
Hún kom til félagsins frá Fjarðab/Hetti/Leikni en þar var hún frábær í Lengjudeildinni á síðasta tímabili. Hún var klárlega einn besti leikmaður deildarinnar og endaði markahæst með 16 mörk.
Linli Tu á að baki leiki fyrir bæði U17 og U20 ára landslið Kína. Hún mun nú taka næsta skref og spila í Bestu deildinni í sumar en rætt var um hana í Heimavellinum á dögunum.
„Ég er spenntastur að sjá Linli Tu sem kemur frá Fjarðab/Hetti/Leikni. Hún hefur verið viðloðandi yngri landslið Kína," sagði Jón Stefán Jónsson, fyrrum þjálfari Þórs/KA og Tindastóls í Heimavellinum.
„Hún raðaði inn mörkum fyrir austan í Lengjudeildinni og var frábær þar. Getur hún skorað í Bestu deildinni?" spurði Mist Rúnarsdóttir.
„Það fóru sögur af því að hún væri á leið til PSV Eindhoven í Hollandi. Ég verð illa svikinn ef hún getur ekki skorað í Bestu deildinni."
Keflavík hafnaði í áttunda sæti Bestu deildarinnar á síðasta ári með 16 stig, en liðið var í því sæti í ótímabæru spánni sem var opinberuð í síðustu viku. Hægt er að skoða spánna í heild sinni með því að smella hérna.
Athugasemdir