Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   mið 20. mars 2024 11:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Adam bauð Gylfa treyjuna sína - „Hann er náttúrulega geitin"
Adam og Gylfi.
Adam og Gylfi.
Mynd: Valur
Adam verður í treyju númer 24 í sumar.
Adam verður í treyju númer 24 í sumar.
Mynd: Valur
Það var tilkynnt fyrr í dag að Gylfi Þór Sigurðsson muni spila í treyju númer 23 hjá Val í sumar og aftan á henni mun standa 'Gylfi Sig'. Adam Ægir Pálsson, leikmaður Vals, hefur hingað til leikið í treyju númer 23 en það var að hans frumkvæði að Gylfi fékk treyjuna.

„Ég vissi auðvitað að Gylfi hefur áður verið í númer 23 þegar hann var hjá Swansea. Það er síðan bara þannig að þegar besti leikmaður Íslands frá upphafi vill fara í þá treyju þá er það bara minn heiður að gefa honum númerið. Ég meina, hann er náttúrulega geitin,“ segir Adam Ægir.

Adam segir að Gylfi hafi þó ekki verið að biðja um treyjuna en hafi tekið því fagnandi þegar Adam bauð númerið. „Ég færi mig upp um eitt númer og ætla að vera í treyju númer 24 í sumar. Það er númer sem ég þekki vel enda sló ég stoðsendingarmetið í treyju númer 24 hjá Keflavík árið 2022. Við verðum flottir félagarnir í 23 og 24,“ segir Adam Ægir sem er vel gíraður í tímabilið.

„Já ekkert smá. Við erum nýkomnir frá Spáni þar sem við náðum mjög góðum æfingum og áttum frábæran tíma saman. Það styttist í mótið og miðað við gæðin og stemninguna í hópnum sé ég ekkert annað en að þetta verði frábært tímabil. Ég á allavega von á skemmtilegu sumri og mun sjá til þess með minni spilamennsku að treyja númer 24 muni rjúka út hjá Macron í sumar,“ segir Adam skellihlæjandi að lokum.

Adam minnir síðan á leikinn gegn ÍA í kvöld í undanúrslitum Lengjubikarsins á N1 vellinum að Hlíðarenda klukkan 18:00. Það er fyrsti leikur Gylfa með Vals en það er frítt á völlinn. „Við viljum sjá fulla stúku.“
Athugasemdir
banner
banner