
Kósovó 2 - 1 Ísland
1-0 Lumbardh Dellova ('19 )
1-1 Orri Steinn Óskarsson (f) ('21 )
2-1 Elvis Rexhbecaj ('57 )
Lestu um leikinn
1-0 Lumbardh Dellova ('19 )
1-1 Orri Steinn Óskarsson (f) ('21 )
2-1 Elvis Rexhbecaj ('57 )
Lestu um leikinn
Íslenska karlalandsliðið tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar er liðið laut í lægra haldi fyrir Kósóvó, 2-1, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar á Fadil Vokrri-leikvanginum í Pristina í Kósóvó í kvöld.
Arnar tók við af Åge Hareide í byrjun ársins og er strax farinn að miðla sinni hugmyndafræði til strákanna en liðið hóf leikinn í 3-4-2-1 leikkerfi með þá Albert Guðmundsson, Orra Stein Óskarsson, Andra Lucas Guðjohnsen og Hákon Arnar Haraldsson í byrjunarliðinu.
Eftir rólega byrjun var það Kósóvó sem tók forystuna. Heimamenn fengu aukaspyrnu sem kom inn í teiginn. Strákunum gekk erfiðlega að hreinsa boltann úr teignum og fór það svo að hann datt fyrir Lumbardh Dellova rétt fyrir utan sem skoraði með skoti meðfram grasinu og í vinstra hornið.
Íslenska liðið var ekki lengi að svara. Markið kom nánast upp úr engu en Ísak Bergmann Jóhannesson fékk boltann, þræddi hann í gegnum alla vörn Kósóvó og á Orra Stein sem sólaði Arijanet Muric, markvörð heimamanna. Skotvinkillinn var þröngur en það reyndist ekkert mál fyrir Orra sem setti boltann efst í vinstra hornið.
Orri fékk dauðafæri til að gera annað mark Íslands eftir stungusendingu Hákonar en Muric varði frá honum. Það hefði mögulega engu skipt þar sem rangstaða var dæmd, en það virtist heldur tæpt í endursýningunni.
Hákon Rafn Valdimarsson var á tánum í flestum aðgerðum sínum og varði góðan skalla undir lok fyrri hálfleiksins, en hann hafði aðeins meira að gera í þeim síðari.
Vedat Muriqi fékk gott tækifæri til að koma Kósóvó yfir snemma í síðari hálfleiknum en Hákon varði aftur frábærlega. Stuttu síðar var dæmt rangstaða en engu að síður vel gert hjá Hákoni.
Heimamenn komust aftur yfir stuttu eftir vörslu Hákonar en hann gat lítið gert í markinu. Elvis Rexhbecaj vann boltann af Hákoni Arnari rétt fyrir utan teig Íslands og skaut föstu skoti í stöng og inn. Óverjandi, en spurning hvort Rexhbecaj hafi verið brotlegur í aðdragandanum.
Það má alveg færa rök fyrir því að hann hafi farið af full miklum ákafa í Hákon. Oft hafa menn fengið aukaspyrnur fyrir svipað brot, en ekki í þetta sinn. Logi Tómasson mótmælti markinu en það hafði ekkert upp á sig og fékk hann gula spjaldið fyrir.
Hákon Rafn hélt áfram að halda Íslandi í leiknum. Hann varði skot frá MIlot Rashica þegar hálftími. Arnar gerði þrjár breytingar á liðinu og um leið fór það að skapa sér hættuleg færi.
Orri Steinn átti skot sem Muric blakaði í hornspyrnu og þá átti Jón Dagur Þorsteinsson skemmtilega takta í teignum áður en hann skaut en aftur varði Muric. Rétt áður dæmdi dómarinn mark af Kósóvó er Amir Rrahmani handlék boltann í teignum áður en hann setti hann í netið. Hárréttur dómur.
Ýmislegt jákvætt við spilamennskuna í kvöld en margt sem má bæta. Ísland fær tækifæri til að snúa við taflinu á sunnudag er liðin mætast í Murcia á Spáni og kemur þá í ljós hvort Ísland spilar í B- eða C-deildinni í næstu Þjóðadeild.
Athugasemdir