Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   lau 20. apríl 2024 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: Við þekkjum liðið þeirra vel - Casemiro mjög mikilvægur
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, er spenntur fyrir undanúrslitaleik FA bikarsins gegn Championship-liði Coventry City sem fer fram á morgun.

Ten Hag segir sína menn vera tilbúna í slaginn, þeir eru búnir að stúdera andstæðinga sína og munu gera allt í sínu valdi til að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum. Þar munu Rauðu djöflarnir annað hvort mæta Manchester City eða Chelsea.

„Við höfum sinnt okkar undirbúningsvinnu vel. Við þekkjum liðið þeirra vel, við vitum hvernig þeir spila og hvað leikmennirnir þeirra geta gert. Við þekkjum líka þjálfarann, hann er fyrrum leikmaður Man Utd og er að gera frábæra hluti með þetta lið. Við erum tilbúnir," sagði Ten Hag á fréttamannafundi í gær.

„Auðvitað er þetta hættulegt lið, þeir eru komnir alla leið í undanúrslitin og voru nálægt því að komast upp í ensku úrvalsdeildina í fyrra. Þeir eru með betri liðum í Championship deildinni og við sáum leikinn þeirra gegn Wolves í 8-liða úrslitum, þeir eru með frábært hugarfar og við þurfum að spila uppá okkar besta ef við ætlum að sigra."

En getur FA bikarkeppnin bjargað slöku tímabili hjá Man Utd?

„Ég er ekki að hugsa um það núna, ég er einbeittur að sunnudeginum og hvernig er best að sigra gegn Coventry. Þetta snýst allt um það og annað kemur seinna. Við viljum berjast um titla á hverju tímabili og núna eigum við gott tækifæri vegna þess að við erum komnir alla leið í undanúrslit."

Ten Hag var að lokum spurður út í brasilíska miðjumanninn Casemiro sem hefur verið langt frá sínu besta á leiktíðinni, eftir að hafa misst af þremur mánuðum í vetur vegna meiðsla.

„Þegar ég kom til félagsins vantaði okkur sexu og Casemiro leysti það hlutverk fullkomlega. Hann var ótrúlega mikilvægur fyrir liðið og á þessu tímabili lenti hann í erfiðum meiðslum sem hann hefur aldrei orðið fyrir áður. Hann er á batavegi, hann þarf fleiri leiki til að komast aftur í sitt gamla form en ég er sannfærður um að hann eigi eftir að færa okkur árangur í framtíðinni.

„Hann er algjör sigurvegari, hann hefur verið sigurvegari allan ferilinn og ég treysti því að hann muni hjálpa okkur að sigra."

Athugasemdir
banner
banner
banner