
,,Ég er mjög ánægður með þetta sérstaklega því við gerðum smá mistök í aukaspyrnunni í byrjun leiks," sagði Logi Ólafsson þjálfari Stjörnunnar eftir 3-1 sigur á FH í Borgunarbikarnum í kvöld.
,,Við náum að jafna og komast yfir og það sýnir að það er kraftur og vilji í okkar liði og greinilega fótboltageta líka."
,,Það sem ég vil að einkenni okkur er að við svona mótlæti vaxi menn og taki á málunum. Það gerðum við svo sannarlega og vorum hér yfir í hálfleik eftir að hafa náð að lagfæra aðeins. Mér fannst þeirra miðjumenn svolítið lausir og við náðum að lagfæra það. Við fórum yfir ákveðin atriði á æfingu í gær og mér fannst þau ganga vel."
,,Á móti FH er ekkert um annað að ræða en að spila virkilega góðan varnarleik og það sem við vorum helst að klikka á og gerði FH auðveldara fyrir er að við vorum með mjög lélegar sendingar í fyrri hálfleik inni á miðjunni þar sem við misstum boltann. Þeir eru með besta lið landsins í að snúa vörn í sókn en við náðum að lagfæra þetta."
,,Við vinnum í öllum þáttum leiksins hvort sem það sé vörn eða sókn og ég held að það hafi sýnt sig að við spilum ágætis vörn frá fremsta mani til aftasta og sköpum færi. Ef ekki hefði verið fyrir Róbert í marki FH þá hefði þetta verið stærra."
Nánar er rætt við Loga í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir