Thomas Frank þjálfari Tottenham var kampakátur eftir flotta byrjun á nýju úrvalsdeildartímabili.
Frank var að stýra Tottenham í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildinni og skóp þægilegan 3-0 sigur gegn Burnley. Brasilíski sóknarmaðurinn Richarlison skoraði tvennu áður en Brennan Johnson innsiglaði sigurinn.
„Þetta er draumabyrjun fyrir okkur og við vitum að við megum ekki láta deigann síga. Það er mikilvægt að njóta sigursins í dag en á morgun heldur vinnan áfram. Þetta var góð frammistaða hjá okkur gegn erfiðum andstæðingum. Það eru ekki til auðveldir andstæðingar í þessari deild," sagði Frank eftir lokaflautið.
„Richarlison á mikið hrós skilið. Hann var virkilega góður gegn PSG og í dag var hann stórkostlegur. Hann keyrði liðið áfram með vinnuseminni sinni og var góður í öllu því sem hann gerði. Hann tengdi liðið saman, hélt boltanum mjög vel og skoraði svo tvö frábær mörk. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd og ég verð að þakka læknateyminu fyrir að hafa farið vel með hann eftir meiðslavandræði í sumar.
„Við þurfum stöðugt að hafa auga með stöðunni hjá Richarlison útaf því að hann er ekki endanlega laus við meiðslin. Við þurfum að fara varlega með hann. Það er ótrúlega mikið af leikjum framundan."
Athugasemdir