Guðmundur Kristjánsson fyrirliði Stjörnunnar hefur sent stuðningsmönnum liðsins bréf fyrir heimaleikinn gegn Vestra í Bestu deildinni í dag.
Stjarnan situr í fjórða sæti deildarinnar með 28 stig eftir 18 umferðir og getur reynt að blanda sér í toppbaráttuna með sigrum í næstu leikjum. Leikurinn gegn Vestra verður erfiður þar sem Ísfirðingar sitja í fimmta sæti og eru ekki nema tveimur stigum á eftir Garðbæingum.
Gummi Kristjáns biðlar til stuðningsmanna Stjörnunnar um að láta í sér heyra á heimavelli í dag með opnu bréfi. Hann vill sjá meiri stuðning frá Garðbæingum.
„Kæru Garðbæingar, Silfurskeiðin og Stjörnufólk!
„Á sunnudaginn mætum við saman á völlinn - Ekki bara til að horfa á leik... heldur til að endurskapa þá stemningu sem Stjarnan er þekkt fyrir!" segir í bréfinu.
„Þegar ég kom til félagsins þá man ég eftir tilhlökkun að spila fyrir framan Silfurskeiðina og stúkuna í Garðabænum, enda mín upplifun sem leikmaður annarra liða að mæta hingað sú að stuðningsmennirnir hér voru þeir bestu. Stúkan var þétt setin í öllum leikjum og mikil stemning sem myndaðist frá henni.
„Ég vona að þetta ákall skili sér því ykkar stuðningur skiptir öllu máli fyrir okkur sem erum á vellinum og gefur aukna orku á stundum sem við þurfum á henni að halda.
„Vonandi sjáum við ykkur sem flest í bláu á sunnudaginn."
Stjarnan spilar við Vestra klukkan 14:00 í dag.
Athugasemdir