Albert Guðmundsson svaraði spurningum í viðtali við La Gazzetta dello Sport en hann er spenntur fyrir nýju deildartímabili í Serie A.
Albert vonast til að fá mikinn spiltíma með Fiorentina undir stjórn nýs þjálfara. Stefano Pioli var ráðinn til félagsins í sumar en hann býr yfir mikilli reynslu úr ítalska boltanum.
„Við erum búnir að leggja mikið á okkur á undirbúningstímabilinu og við erum sáttir með stöðu mála. Við erum á réttri braut og andrúmsloftið í klefanum er gott," sagði Albert.
„Hinir þjálfararnir sem ég hef haft í ítalska boltanum voru yngri og óreyndari. Frábærir þjálfarar sem geta náð mjög langt en Pioli er nú þegar búinn að ná langt. Þetta er maður sem er búinn að vinna ítölsku deildina og taka oft þátt í Meistaradeildinni. Hann hefur þjálfað goðsagnir á borð við Zlatan Ibrahimovic og Cristiano Ronaldo. Maður tekur eftir því að hann býr yfir mikilli reynslu."
Fiorentina endaði í sjötta sæti Serie A á síðustu leiktíð og tekur því þátt í Sambandsdeildinni í haust. Albert segir að markmið tímabilsins sé að gera enn betur og komast í Meistaradeildina.
„Við erum með sterkt lið og getum gert góða hluti. Við erum ekki fullkomnir og ekki alveg tilbúnir eins og staðan er í dag en ef við leggjum mikla vinnu á okkur getum við afrekað ótrúlegustu hluti. Ég vona að þetta verði mitt tímabil, ég var að glíma við mikið af meiðslum í fyrra og ég vonast til að geta spilað fleiri leiki á þessari leiktíð."
Albert leikur sem sóknarmaður og mun leika við hlið Moise Kean og Edin Dzeko í fremstu víglínu. Albert er mjög spenntur fyrir að spila annað tímabil við hlið Moise Kean og er einnig mjög ánægður með komu Dzeko til félagsins. Hann var beðinn um að lýsa hverjum leikmanni í sóknarlínunni með einu orði.
„Edin var snöggur að laga sig að okkur og við skiljum hvorn annan mjög vel innan vallar þó við höfum bara æft saman í 3-4 vikur. Moise er algjört skrímsli, hann er sterkur, snöggur og algjör morðingi innan vítateigs. Edin er gáfaður. Hann hreyfir sig rétt og tekur öll réttu hlaupin og réttar snertingar, auk þess að skora mörk. Þegar kemur að sjálfum mér myndi ég velja orðið gæði."
Athugasemdir