Ítalska félagið Roma hefur sett sig í samband við Manchester United vegna hollenska bakvarðarins Tyrell Malacia en það er Fabrizio Romano sem skúbbar þessu á X í dag.
Roma hefur síðustu daga verið í viðræðum við United um kaup á enska vængmanninum Jadon Sancho og miðar þeim viðræðum hratt og örugglega áfram, en nú er beðið eftir því að Sancho samþykki að ganga í raðir Roma.
Annar United-maður gæti fylgt honum til Roma ef marka má fréttir Romano í dag.
Romano segir að á fundi Roma og United hafi ítalska félagið spurst fyrir um hollenska bakvörðinn Malacia.
Malacia er 26 ára gamall og verið á mála hjá United frá 2022, en hann eyddi síðustu leiktíð á láni hjá PSV í heimalandinu.
Tyrkneska félagið Besiktas er einnig að skoða Malacia sem verður samningslaus á næsta tímabili.
Athugasemdir