Chelsea ætlar að hafna öllum lánstilboðum í miðjumanninn Carney Chukwuemeka, sem er 21 árs gamall og með þrjú ár eftir af samningi.
Chelsea hefur engan áhuga á að lána leikmanninn út í sumar og hafnaði lánstilboði með 15 milljón punda kaupskyldu frá Borussia Dortmund.
Stjórnendur Chelsea eru ósáttir með hversu lítinn spiltíma Chukwuemeka fékk með Dortmund þegar hann var lánaður til þeirra í vetur. Hann kom við sögu í 17 leikjum en spilaði aðeins um 400 mínútur í heildina þar sem hann kom alltaf inn af bekknum nema í tveimur leikjum.
Chelsea er ekki reiðubúið til að lána leikmanninn aftur út í sumar en hann er til sölu fyrir um 30 milljónir punda.
Juventus, RB Leipzig og Napoli hafa verið nefnd til sögunnar sem áhugasöm um að næla sér í Chukwuemeka, en verðmiðinn gæti fælt þau frá. Félögin vilja fyrst fá leikmanninn á láni til að skoða hann betur.
Chukwuemeka er með 25 landsleiki að baki fyrir yngri landslið Englands en var ekki í U21 liðinu sem vann EM í sumar.
04.08.2025 18:51
Dortmund færist nær Chukwuemeka
Athugasemdir