Salah vill framlengja við Liverpool - Al-Nassr vill fá Kovacic - Man Utd og Newcastle enn með í baráttunni um Rabiot
   lau 20. júlí 2024 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Sjálfsmark í lokin réði úrslitum á Hlíðarenda
Valskonur fögnuðu sigri í kvöld
Valskonur fögnuðu sigri í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflvíkingar börðust vel í dag en það dugði ekki til að ná í stig
Keflvíkingar börðust vel í dag en það dugði ekki til að ná í stig
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fanndís Friðriksdóttir var öflug í sóknarleik Vals
Fanndís Friðriksdóttir var öflug í sóknarleik Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 2 - 1 Keflavík
0-1 Anita Lind Daníelsdóttir ('20 )
1-1 Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir ('28 )
2-1 Anita Bergrán Eyjólfsdóttir ('90 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn

Íslandsmeistarar Vals unnu nauman, 2-1, sigur á Keflavík á Hlíðarenda í Bestu deild kvenna í dag en það var sjálfsmark undir lokin sem tryggði liðinu sigurin.

Heimakonur voru sterkari aðilinn fyrstu mínúturnar. Ísabella Sara Tryggvadóttir átti tilraun yfir markið og þá skallaði Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir boltanum framhjá eftir undirbúning Hailey Whitaker.

Keflvíkingar sköpuðu sér stórhættulegt færi stuttu síðar. Kristrún Ýr Hólm, fyrirliði Keflvíkinga, keyrði upp völlinn, fór framhjá nokkrum varnarmönnum Vals áður en hún lét vaða á markið en Fanney Inga Birkisdóttir gerði vel að verja.

Gestirnir tóku forystuna mínútu síðar. Anita Linda Daníelsdóttir skaut fyrir utan teig, boltinn af Hailey og í netið. Valskonur settu í næsta gír og svöruðu markinu vel.

Kate Cousins átti skalla sem hafnaði í stönginni áður en Ragnheiður Þórunn jafnaði nokkrum mínútum síðar. Fanndís Friðriksdóttir tók hornspyrnu sem datt í teignum. Eftir mikinn darraðadans datt boltinn fyrir Ragnheiði sem kom honum í netið og staðan jöfn.

Síðari hálfleikurinn var í eign Vals og virtist markmið gestanna að halda út og taka stigið.

Á síðustu tuttugu mínútum leiksins fengu Valskonur fjögur dauðafæri til að skora en nýttu ekki.

Berglind Rós Ágústsdóttir átti fyrsta færið. Húnn fékk boltann í teignum, með markið fyrir framan sig en skaut boltanum hátt yfir markið. Næst fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir lúxusfæri er hún var alein á teignum. Í stað þess að taka viðstöðulaust skot reyndi hún móttöku sem heppnaðist illa og rann færið út í sandinn.

Fanndís var allt í öllu í sóknarleiknum og var í því að matreiða liðsfélaga sína. Á 79. mínútu kom hún boltanum á Ragnheiði sem tók skotið en Vera varði vel í markinu. Boltinn datt fyrir Önnu Rakel sem var með autt markið fyrir framan sig en setti boltann framhjá.

Þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma átti Ragnheiður skalla í stöng. Boltinn vildi bara ekki inn en Valur þurfti smá heppni með sér til að gera sigurmarkið.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir náði að halda boltanum inn á og kom honum fyrir markið. Þar var Aníta Bergrán Eyjólfsdóttir alein í teignum, en henni tókst einhvern veginn að stýra boltanum í eigið net.

Ótrúlega svekkjandi endir fyrir baráttuglaða Keflvíkinga en úrslitin líklega sanngjarn miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Valur er nú með 36 stig eins og Breiðablik, sem heldur toppsætinu á markatölu, en Keflavík í 9. sæti með 9 stig.
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 18 16 1 1 48 - 16 +32 49
2.    Breiðablik 18 16 0 2 46 - 9 +37 48
3.    Þór/KA 18 9 3 6 40 - 28 +12 30
4.    Víkingur R. 18 8 5 5 28 - 29 -1 29
5.    FH 18 8 1 9 30 - 36 -6 25
6.    Þróttur R. 18 7 2 9 23 - 27 -4 23
7.    Stjarnan 18 6 3 9 22 - 34 -12 21
8.    Tindastóll 18 3 4 11 20 - 41 -21 13
9.    Fylkir 18 2 4 12 17 - 34 -17 10
10.    Keflavík 18 3 1 14 16 - 36 -20 10
Athugasemdir
banner