þri 20. september 2022 08:13
Elvar Geir Magnússon
Aron Einar á sinni fyrstu landsliðsæfingu í 15 mánuði
Aron Einar á landsliðsæfingu í Vín í gær.
Aron Einar á landsliðsæfingu í Vín í gær.
Mynd: KSÍ
Íslenska landsliðið er við æfingar í Vínarborg í Austurríki en þar mun æfingaleikur við Venesúela fara fram á fimmtudag. Leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma og fer fram á Motion Invest leikvanginum í Wiener Neustadt.

Örvar Jens Arnarsson, fréttamaður Fótbolta.net, verður á leiknum og textalýsir honum beint frá Austurríki.

Ísland hefur aldrei áður mætt Venesúela í landsleik. Lið Venesúela er sem stendur í 56. sæti á styrkleikalista FIFA en Ísland er í 63. sæti.

KSÍ hefur birt myndir af æfingu gærdagsins en þar má meðal annars sjá Aron Einar Gunnarsson sem er tekinn við fyrirliðabandinu að nýju. Aron hefur leikið 97 landsleiki en hefur ekki spilað síðan í júní 2021.

Ríkis­sak­sóknari stað­festi í síðasta mánuði niður­fellingu Héraðs­sak­sóknara á kyn­ferðis­brota­máli sem höfðað var gegn Aroni. Þar með var frjálst fyrir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara að velja hann í hópinn á nýjan leik.

Ísland leikur tvo leiki í þessum glugga, aðalmálið er leikur við Albaníu í B-deild Þjóðadeildarinnar fer fram í Tirana þann 27. september og gæti endað sem úrslitaleikur um sæti í A-deildinni.

Aðeins þrjú lið eru í riðlinum (þar sem Rússlandi var meinuð þátttaka og fellur sjálfkrafa) og á laugardag mætast Ísrael og Albanía. Ef Albanía vinnur þann leik þá verður hreinn úrslitaleikur milli Albaníu og Íslands þar sem Ísland verður að vinna til að hirða toppsætið og komast þar með upp í A-deildina. Ef Ísrael og Albanía gera jafntefli þá getur Ísland einnig með sigri í Albaníu og betri markatölu en Ísrael tekið efsta sætið.


Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner