Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fim 20. október 2022 11:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ætla að endursemja við Gumma Magg - „Engin plön um neitt annað"
Guðmundur Magnússon.
Guðmundur Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram fagnar marki í sumar.
Fram fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agnar Þór Hilmarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, reiknar ekki með öðru en að sóknarmaðurinn Guðmundur Magnússon verði áfram í herbúðum félagsins.

Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur Þungavigtarinnar taldi sig vera með áreiðanlegar heimildir fyrir því að Guðmundur væri búinn að rifta samningi sínum við félagið en það er ekki satt.

Það er vissulega satt að hann sé með ákvæði í samningnum um riftun en hann er ekki búinn að taka neina ákvörðun í þeim efnum.

„Hann má kannski fara að vinna hana ögn betur," segir Agnar í samtali við Fótbolta.net um heimavinnu Kristjáns Óla.

„Það eru engin plön um neitt annað en að Gummi verði áfram í Fram. Þegar menn eiga ár eftir af samningi þá er eðlilegt að hefja samningaviðræður. Þær hafa verið á milli okkar og Gumma. Það er búið að standa lengi til að framlengja við hann."

„Það eru ekki uppi nein önnur plön en að samstarf okkar haldi áfram. Gummi er mikill Framari, hann er að eiga sitt besta tímbil og við teljum að hann eigi meira inni. Það er heila málið. Hann hefur ekki rift samningnum, það hefur ekki átt sér stað."

„Staðan er sú að samningaviðræður eru hafnar og svo fara þær á fullt þegar við erum búnir að leggja tímabilið til hliðar."

Agnar segir að það hafi ekki borist til tals að rifta samningnum, en félagið stefnir á að endursemja við hann. Það er ekki skrítið að leikmaður í hans stöðu - sem hefur átt eins gott tímabil og hann - fái nýjan og betri samning.

„Það væri skrítið í þessu tilfelli ef hvorugir aðilar vildu ekki semja. Það er vilji beggja að gera nýjan samning við Guðmund. Við munum setja fullan þunga á það á næstu dögum," segir Agnar og bætir við að það sé í skoðun að framlengja við fleiri leikmenn. Hann segir að engin önnur félög hafi rætt við Fram né Guðmund í þessu máli.

„Hann er mikill Framari og samstarfið hefur gengið vel, jafnvel vonum framar. Við reiknum ekki með öðru en að það haldi áfram. Við erum stoltir af tímabilinu hans," segir formaðurinn jafnframt.

Guðmundur, sem er fæddur árið 1991, er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum. Hann er búinn að gera 15 mörk í 21 leik á tímabilinu. Það eru enn tvær umferðir eftir af deildinni.
Athugasemdir
banner
banner