Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 20. október 2022 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gummi Magg ekki búinn að rifta samningnum
Guðmundur Magnússon.
Guðmundur Magnússon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Guðmundur Magnússon segist ekki vera búinn að rifta samningi sínum við Fram.

Það kom fram í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni í gær að hann væri búinn að rifta samningi sínum við Fram. „Ég hef það eftir ansi áreiðanlegum heimildum að markamaskínan Gummi Magg sé með ákvæði um að geta rift samningnum," sagði Kristján Óli Sigurðsson og bætti við því á Twitter að sóknarmaðurinn væri búinn að nýta sér þetta ákvæði.

Fréttamaður Fótbolta.net náði tali af Guðmundi rétt áðan og spurði út í þessar fréttir. Það er vissulega satt að hann sé með ákvæði í samningnum um riftun en hann er ekki búinn að taka neina ákvörðun í þeim efnum.

„Ég veit ekki alveg hvernig hann hefur fengið veður af þessu. Ég er ekki búinn að rifta samningnum, nei," sagði Guðmundur.

„Það er eitthvað sem ég skoða eftir tímabilið. Það er allavega ekki rétt að ég sé búinn að því. Ég get alveg sagt að það er þannig ákvæði en ég veit ekki hvernig þeir vissu af því."

„Ég held að það sé alveg borðleggjandi að þegar maður er með svona klásúlu og maður er búinn að gera vel, að þá skoðar maður það. Ég vildi ekki að þetta kæmi út, þetta er bara á milli mín og Fram," sagði Gummi sem hefur verið magnaður í sumar.

Guðmundur, sem er fæddur árið 1991, er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum. Hann er búinn að gera 15 mörk í 21 leik á tímabilinu. Það eru enn tvær umferðir eftir af deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner