Mainoo til Napoli? - Höjlund snýr ekki til baka í janúar - Þrír miðjumenn orðaðir við United - Spurs tilbúið að borga 70 milljónir punda
banner
   mán 20. október 2025 21:39
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta lítur upp til Simeone: Hef lært ýmislegt af honum
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mikel Arteta þjálfari Arsenal svaraði spurningum á fréttamannafundi fyrir stórleik liðsins gegn Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu.

Stórliðin eigast við á Emirates leikvanginum annað kvöld og segist Arteta líta upp til Diego Simeone þjálfara Atlético. Simeone hefur verið við stjórnvölinn hjá félaginu síðan 2011, átta árum áður en Arteta tók við Arsenal.

Arteta er með næsthæsta starfsaldur allra þjálfara í úrvalsdeildinni á eftir Pep Guardiola þjálfara Manchester City.

„Simeone er einstaklingur sem ég lít upp til og ég hef lært ýmislegt af honum á mínum ferli. Það sem aðskilur hann frá öðrum þjálfurum er ástríðan sem hann hefur. Þegar ég hugsa til þess hvað hann hefur verið lengi í fótboltaheiminum og í svo langan tíma hjá sama félagsliði með sömu leikmennina, þá velti ég því fyrir mér hvernig honum tekst ennþá að smita leikmennina sína með svona mikilli orku og sigurvilja. Mér finnst það magnað," sagði Arteta.

„Þjálfaraheimurinn er mjög harður og það er erfitt að sannfæra leikmennina um að fylgja þínum hugmyndum og elta þig áfram, sérstaklega þegar illa gengur.

„Ég þekki hann ekki persónulega en hann er að vinna ótrúlegt starf hjá Atlético Madrid, það leikur enginn vafi á því. Að mínu mati þá gæti hann gert góða hluti í hvaða deild sem er, hann væri flottur í enska boltanum. Hann hefur alla burði sem þarf til að ná árangri í úrvalsdeildinni."


Simeone hefur unnið spænsku deildina tvisvar við stjórnvölinn hjá Atlético og Evrópudeildina tvisvar. Þar að auki hefur hann tvisvar sinnum unnið Ofurbikar Evrópu og spænska Konungsbikarinn einu sinni. Hann hefur tvisvar sinnum farið með Atlético alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, án þess þó að takast að sigra.

„Þetta verður mjög erfiður leikur gegn liði sem berst um hvern einasta millimeter á vellinum. Þeir eru með sterkt hugarfar og gott skipulag sem eru mikilvæg undirstöðuatriði í fótbolta. Þeir eru með gæðamikla leikmenn sem geta skorað úr minnstu tækifærum, þeir eru virkilega erfiðir andstæðingar."

Arsenal hefur hingað til lagt Olympiakos og Athletic Bilbao að velli í Meistaradeildinni á meðan Atlético byrjaði á 3-2 tapi gegn Liverpool á Anfield og rúllaði svo yfir Eintracht Frankfurt á heimavelli í síðustu umferð.
Athugasemdir
banner
banner