Hollenska félagið Ajax bauð Marc Overmars að taka aftur við stjórnunarstöðu hjá félaginu aðeins þremur árum eftir að hann var rekinn fyrir óviðeigandi framkomu í garð kvenkyns starfsmanna félagsins. Þetta segir hann í samtali við Telegraaf.
Overmars er goðsögn hjá Ajax eftir að hafa spilað fimm ár með félaginu frá 1992 til 1997. Þar fagnaði hann Evrópumeistaratitlinum svo eftirminnilega.
Hann spilaði einnig með Barcelona og með Arsenal á Englandi, en eftir að ferlinum lauk tók hann við hlutverki yfirmanns fótboltamála hjá Ajax, stöðu sem hann sinnti í tíu ár áður en hann var rekinn með skömm.
Hollendingurinn sendi óviðeigandi skilaboð og myndir á kvenkyns kollega sína hjá Ajax og var gert að láta af störfum ásamt því að vera dæmdur í eins árs bann af FIFA.
Í dag er hann yfir fótboltamálum hjá Antwerp í Belgíu þar sem hann hefur verið að gera það gott.
Overmars var boðið að snúa aftur til Ajax sem tæknilegur stjórnandi en ákvað að hafna boðinu.
„Margir einstaklingar reyndu að fá mig fyrir einhverju síðan og síðan aftur á dögunum. Þetta er fólk í mikilvægum stöðum, en ég ætla ekki að nefna nein nöfn því þá myndi það verða að einhverjum pólitískum leik innan herbúða félagsins. Fyrir mér er þessu ævintýri lokið og skipið siglt úr höfn,“ sagði Overmars við Telegraaf.
Athugasemdir



