Hermann Hreiðarsson, nýráðinn þjálfari Vals, var á dögunum vígður inn í WOPA (Wimbledon old players assosiation). Hann var 534. meðlimur félagsins.
John Lynch annar varaforseti AFC Wimbledon var staddur á landinu og veitti Hermanni nælu til staðfestingar á inngöngu í félagið.
Hermann lék eitt tímabil með Wimbledon, 1999/2000. Samkvæmt Transfermarkt lék hann 27 leiki fyrir félagið sem féll niður úr ensku Úrvalsdeildinni.
Liðið var kallað „Crazy gang" á sínum tíma en þar innanborðs voru miklir og stórir karakterar, sem Hermann gat eflaust tengt við.
Hermann ræddi um tímann hjá Wimbledon í Miðjunni, hlaðvarpi Fótbolta.net, fyrir um sex árum og lýsti skrautlegum aðstæðum.
„Þegar maður kom aftur inn í klefa var búið að kveikja í fötunum og setja skóna manns ofan í klósettið. Tónninn var gefinn og það þýddi ekkert að mjálma og væla þarna. Það var vel tekið á því á æfingu og menn spörkuðu vel í hvorn annan. Menn vissu líka að menn myndu gera það sama fyrir hvorn annan í næsta leik."

