ÍBV vann Lengjudeildina í sumar og verður í Bestu deildinni á næsta tímabili. Tvær Eyjakonur eru samningslausar hjá Val, þær Elísa Viðarsdóttir (1991) og Fanndís Friðriksdóttir (1990), og allavega ljóst að Fanndís verður ekki áfram hjá Val. Elísa var þá orðuð við ÍBV í íslenska slúðurpakkanum í síðasta mánuði.
Fótbolti.net ræddi við Jón Ólaf Daníelsson, þjálfara ÍBV, og spurði hann út í hvort rætt hefði verið við Eyjakonurnar um að snúa aftur í uppeldisfélagið.
Fótbolti.net ræddi við Jón Ólaf Daníelsson, þjálfara ÍBV, og spurði hann út í hvort rætt hefði verið við Eyjakonurnar um að snúa aftur í uppeldisfélagið.
„Nei, við höfum ekki tekið spjallið. Það er öll mál opin í báða enda, það er verið að skoða öll mál að fullu," segir Jón Óli.
Þú sem þjálfari ÍBV, værir þú til í að fá þær í liðið þitt?
„Já, að sjálfsögðu væri ég til að fá þær í liðið mitt. En svo er þetta alltaf spurning um í hvaða leikstöður vantar þig leikmenn. Við getum sannarlega sagt að okkur vanti hægri kantmann. Svo er þetta alltaf spurning um hvað hentar og hvað er hægt að gera. Fyrir leikmenn sem eru komnir á þennan aldur, að ætla fara rífa upp fjölskyldur með rótum fyrir kannski eitt leiktímabil, það er kannski hægara sagt en gert."
„Okkur vantar að breikka hópinn. Við munum ekki sleppa eins vel og á þessu leiktímabili varðandi meiðsli og leikbönn. Við vorum með leikmenn úr 3. og 4. flokki í hópnum. Þær verða að sjálfsögðu árinu eldri, en það þarf að fara vel og varlega með þessa ungu leikmenn."
„Það vita allir að það er töluverður munur á Lengjudeild og Bestu deild. Því þarftu einfaldlega breiðari hóp ef ekki á illa að fara," segir Jón Óli.
Athugasemdir




