Thomas Frank svaraði spurningum fréttamanna eftir tap á heimavelli gegn Englandsmeisturum Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Lærlingar hans léku manni færri stærsta hluta leiksins og voru svo tveimur færri í uppbótartímanum. Frank er stoltur af frammistöðu leikmanna sinna sem lögðu allt í sölurnar en tókst þó ekki að bjarga stigi.
Danski þjálfarinn er þó alls ekki sáttur með dómarateymið sem hann telur hafa klikkað á öllum stóru ákvörðunum leiksins.
„Fyrst og fremst er ég mjög stoltur af strákunum. Þeir gáfu allt í þetta og sýndu magnað hugarfar. Þeir brugðust vel við bakslögum og gáfust aldrei upp," sagði Frank. Xavi Simons fékk beint rautt spjald fyrir fara með takkana í hásin á Virgil van Dijk. Spjaldið var upprunalega gult á litinn en varð rautt eftir nánari athugun í VAR-herberginu.
„Ég hef séð dæmt rautt fyrir svona brot en mér líkar það ekki. Leikurinn er farinn (e. game's gone) ef þetta er rautt spjald. Þetta er ekki glæfraleg tækling og hann beitti ekki óhóflegum krafti. Dómarinn dæmdi gult spjald og það átti að standa.
„Strákarnir brugðust vel við þessu bakslagi, þeir héldu sér í leiknum og vörðust mjög vel. Svo fá þeir eitt mark á sig og svo annað sem var ólöglegt. Framherjinn er með báðar hendurnar á baki varnarmannsins þegar hann hoppar upp og eftir því sem ég þekki leikreglurnar þá er það bannað. Ég get skilið að dómarinn hafi ekki séð það í rauntíma, en ég hélt að við værum með VAR til að leiðrétta nákvæmlega svona mistök."
Á þessum tímapunkti var Liverpool komið tveimur mörkum yfir en lærlingar Frank héldu áfram að berjast og minnkuðu muninn. Þegar komið var í uppbótartíma misstu þeir fyrirliðann Cristian Romero af velli með annað gula spjaldið sitt en héldu samt áfram að leita að jöfnunarmarki. Níu leikmenn Tottenham sköpuðu nokkrar hættulegar stöður en komu boltanum ekki framhjá Alisson Becker.
„Þrátt fyrir allt þetta héldum við okkur ennþá í leiknum og skoruðum mjög gott mark til að minnka muninn. Eftir það héldum við áfram að berjast og svo endum við leikinn tveimur færri. Seinna gula spjaldið sem Cuti (Romero) fær dæmt á sig er ósanngjarnt, dómarinn verður að hafa betri tilfinningu fyrir leiknum.
„Þetta eru tveir stórir strákar að berjast og fóturinn hans (Ibrahima) Konaté lendir á höfðinu (á Romero) en það er ekkert gult spjald. Svo er örlítil hreyfing frá Cuti sem átti aldrei að vera seinna gula spjaldið miðað við hvernig leikurinn hefur verið. Strákarnir brugðust samt enn og aftur mjög vel við og hefðu getað jafnað."
Athugasemdir


