Þremur fyrstu leikjum dagsins er lokið í spænska boltanum þar sem Real Sociedad gerði jafntefli við Levante í fallbaráttunni.
Orri Steinn Óskarsson er enn fjarverandi vegna meiðsla en það var Takefusa Kubo sem tók forystuna fyrir Sociedad í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Sociedad var sterkara liðið í fyrri hálfleik en heimamenn í Levante skiptu um gír í síðari hálfleik og úr varð spennandi slagur. Sociedad hélt þó forystunni allt þar til í uppbótartíma þegar Dela jafnaði með marki úr vítaspyrnu, svo lokatölur urðu 1-1.
Sociedad er með 17 stig eftir 17 umferðir, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Levante er á botni La Liga með 10 stig.
Real Oviedo og Celta Vigo gerðu einnig markalaust jafntefli í dag áður en Osasuna vann sannfærandi sigur á Alavés eftir frábæran seinni hálfleik.
Oviedo er í næstneðsta sæti með 11 stig á meðan Celta Vigo á 23 stig og er í Evrópubaráttu sem stendur. Osasuna og Alavés eru jöfn á stigum með 18 stig.
Real Madrid tekur á móti Sevilla í lokaleik dagsins.
Levante 1 - 1 Real Sociedad
0-1 Takefusa Kubo ('45 )
1-1 Adrian De La Fuente ('90 , víti)
Osasuna 3 - 0 Alaves
1-0 Ante Budimir ('72 )
2-0 Ante Budimir ('81 , víti)
3-0 Raul Garcia ('90 )
Real Oviedo 0 - 0 Celta Vigo
Athugasemdir


