Xabi Alonso þjálfari Real Madrid svaraði spurningum á fréttamannafundi í gær fyrir leik liðsins gegn Sevilla.
Real Madrid tekur á móti Sevilla í kvöld og þarf á sigri að halda í toppbaráttu spænsku deildarinnar. Gengi liðsins hefur ekki verið gott undanfarnar vikur og var bikarsigurinn gegn C-deildarliði CF Talavera í miðri viku allt annað en sannfærandi.
Fjölmiðlar hafa gagnrýnt Alonso harðlega síðustu mánuði og skrifað sögur um ósætti á milli hans og einhverra lykilmanna félagsins, þá sérstaklega brasilísku stórstjörnuna Vinícius Júnior. Þá er hávær orðrómur í gangi um að starf Alonso sé í bráðri hættu.
„Ég hef átt í mjög góðu sambandi við stjórn félagsins allt frá upphafi. Kröfurnar hérna eru gríðarlegar en ferðalagið er langt og við munum eiga góða og slæma kafla," sagði Alonso og snéri sér svo að kantmönnunum Vinícius Jr. og Rodrygo Goes.
Vinícius er ekki búinn að skora síðan í byrjun október, hvorki fyrir Real Madrid né Brasilíu, en hann er búinn að leggja þrisvar sinnum upp í síðustu sex leikjum. Rodrygo er aftur á móti kominn með tvö mörk í síðustu þremur leikjum eftir langan og erfiðan kafla án marka.
„Ég er ánægður með Vini Jr, hann er að standa sig vel og ég er viss um að markið sem hann leitar af mun koma bráðlega.
„Ég er líka mjög ánægður með Rodrygo og jafnframt fyrir hans hönd að vera byrjaður að skora aftur. Hann er mjög gæðamikill leikmaður sem getur hjálpað okkur mikið."
Athugasemdir


