
Dagný Brynjarsdóttir er snúin aftur í íslenska landsliðið eftir langa fjarveru en hún hafði ekki verið í hópnum síðan hún eignaðist sitt annað barn í fyrravetur.
Hún sneri aftur í lið West Ham í lokaumferðinni í ensku deildinni í maí síðastliðnum en hefur ekki náð að festa sig í sessi á yfirstandandi tímabili og bara byrjað þrjá leiki.
„Hún er búin að vera góð á æfingum og lítur vel út. Hún er glöð og ánægð að vera hérna," sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari við Fótbolta.net í gær um endurkomu Dagnýjar.
Ísland mætir Sviss í Þjóðadeildinni í Zurich í kvöld og aðspurður hvort Dagný gæti verið í byrjunarliðinu sagði Þorsteinn: „Ég vadli hana í hópinn og hluti af því er að ég tel hana klára í að byrja," sagði hann.
Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði Íslands var ánægð að fá Dagnýju í hópinn að nýju. „Það er gott að fá Dagnýju aftur, hún er mikil félagsvera og það er gaman í kringum hana. Hún kemur líka með mikla reynslu inn í hópinn sem er frábært," sagði Glódís og bætti svo við spurð út í stemmninguna í kringum Dagnýju: „Henni finnst bara svo gaman að tala!"
Athugasemdir