Dagný Brynjarsdóttir er í íslenska landsliðshópnum í fyrsta sinn eftir að hún eignaðist sitt annað barn.
Hún er í hópnum fyrir leiki gegn Sviss og Frakklandi í Þjóðadeildinni. Báðir leikirnir fara fram ytra. Um er að ræða fyrstu tvo leikina í riðlinum, en Noregur er fjórða lið riðilsins.
Hún er í hópnum fyrir leiki gegn Sviss og Frakklandi í Þjóðadeildinni. Báðir leikirnir fara fram ytra. Um er að ræða fyrstu tvo leikina í riðlinum, en Noregur er fjórða lið riðilsins.
Í nóvember síðastliðnum lýsti Dagný yfir óánægju sinni með að vera ekki valin í landsliðshópinn og með samskipti sín við landsliðsþjálfarann, Þorstein Halldórsson.
„Ég ætti að vera komin aftur í íslenska landsliðið en þetta er í fyrsta sinn síðan ég var átján ára gömul sem ég er ekki valin í landsliðið. Ég var komin aftur í landsliðið á þessum tíma eftir fyrra barnið og ég er komin lengra núna en ég var þá," sagði Dagný og bætti við:
„Landsliðsþjálfarinn hringdi ekki í mig í sjö mánuði. Það hafa heldur ekki verið nein samtöl við starfsfólkið hér hjá West Ham eða við mig til að athuga stöðuna á mér."
Þorsteinn sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og var þar spurður út í Dagnýju og hennar gagnrýni.
„Það er fullt af leikmönnum sem eru ósáttir við að vera ekki í landsliðinu og leikmenn tjá sig á mismunandi hátt um það. Sumir tala beint við mig og aðrir fara leið eins og Dagný með því að fara í fjölmiðla. Ég set ekkert út á það þótt leikmenn gagnrýni mig fyrir að velja þær ekki í landsliðið," sagði Þorsteinn.
„Þær mega hafa þá skoðun eins og þær vilja. Ég óttast það ekki neitt. Það er bara partur af þessu starfi að taka við gagnrýni. Ég set ekkert út á það."
„Ég er búinn að tala tvisvar eða þrisvar við hana síðastliðnar vikur. Það er ekkert vandamál okkar á milli. Hún kemur vonandi fersk og sterk í þetta verkefni, það er mín trú."
Ekki verið að fá mikið af mínútum
Dagný hefur ekki verið í lykilhlutverki hjá West Ham á tímabilinu, eins og hún var áður. Hún hefur aðeins byrjað þrjá leiki í ensku úrvalsdeildinni.
„Hún hefur staðið sig ágætlega en hefur ekki verið að fá mikið af mínútum síðastliðna þrjá eða fjóra mánuði. Hún byrjaði mikið af leikjum á undirbúningstímabilinu og í byrjun tímabilsins," sagði Dagný.
„Síðan hefur mínútum fækkað og auðvitað eru það vonbrigði miðað við hennar þróun. Hún er að koma til baka eftir um árs fjarveru. Hún er samt á réttri leið og ég vonast eftir því að hún nái sér á strik með okkur og West Ham."
Athugasemdir