Það fóru ellefu leikir fram í undankeppni Afríkuþjóða fyrir HM 2026 í dag og í kvöld, þar sem Mohamed Salah skoraði og lagði upp í sigri Egyptalands í Eþíópíu.
Salah lék allan leikinn og skoraði og lagði upp í fyrri hálfleik, en Omar Marmoush leikmaður Manchester City var einnig í byrjunarliðinu.
Egyptar eru í frábærri stöðu í undankeppninni með 13 stig eftir 5 umferðir og fimm stiga forystu á næstu þjóðir fyrir neðan.
Victor Osimhen skoraði þá bæði mörkin í 0-2 sigri Nígeríu í Rúanda, eftir stoðsendingar frá Ademola Lookman og Samuel Chukwueze.
Stjörnum prýtt lið Nígeríu hefur átt hrikalega undankeppni og var þetta fyrsti sigur landsliðsins í riðlinum. Þjóðin er aðeins komin með sex stig eftir fimm umferðir, heilum fjórum stigum á eftir Suður-Afríku sem vermir toppsæti riðilsins. Suður-Afríka sigraði nágrannaslag gegn Lesótó í dag og er ljóst að Nígeríumenn þurfa að sigra næstu leiki til að komast á HM.
Sterkt landslið Gana er þá búið að endurheimta toppsætið í sínum riðli með sannfærandi sigri gegn Tsjad. Antoine Semenyo, leikmaður Bournemouth, skoraði þar fyrsta mark leiksins áður en Inaki Williams og Jordan Ayew bættu við.
Mohamed Salisu, fyrrum varnarmaður Southampton, bætti fjórða markinu við í síðari hálfleik áður en Ernest Nuamah setti fimmta og síðasta markið.
Gana er með 12 stig eftir 5 umferðir, tveimur stigum fyrir ofan Madagaskar í harðri toppbaráttu sem inniheldur einnig Kómoreyjar og Malí.
Riyad Mahrez og Rayan Ait-Nouri voru í byrjunarliði Alsír í sigri gegn Botsvana í dag, þar sem Amine Gouiri og Mohamed Amoura, leikmenn Marseille og Wolfsburg, sáu um markaskorunina.
Alsír er í harðri toppbaráttu við Mósambík í sínum riðli, alveg eins og Fílabeinsströndin er í mikilli baráttu við Gabon í sínum riðli.
Evann Guessand skoraði eina mark leiksins í sigri Fílabeinsstrandarinnar í dag, eftir undirbúning frá Sebastién Haller.
Að lokum tókst Marokkó að gera sigurmark á lokamínútunum á útivelli gegn Níger. Marokkó lenti óvænt undir þrátt fyrir yfirburði á vellinum en tókst að snúa stöðunni sér í hag og sigra.
Lokatölur urðu 1-2 og er Marokkó í frábærri stöðu á toppi síns riðils með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
Noussair Mazraoui, Achraf Hakimi, Sofyan Amrabat, Brahim Diaz og Youssef En-Nesyri voru meðal byrjunarliðsmanna í sterku liði Marokkó í kvöld.
Yoane Wissa lagði þá eina mark leiksins upp í dýrmætum sigri hjá Austur-Kongó gegn Suður-Súdan. Chancel Mbemba var einnig í byrjunarliðinu.
Nafnarnir Bertrand og Lassina Traore, sem hafa báðir leikið fyrir Ajax á ferlinum, skoruðu þá báðir í þægilegum sigri Búrkína Fasó sem er að berjast um annað sætið í egypska riðlinum. Dango Ouattara og Issa Kaboré voru einnig meðal byrjunarliðsmanna.
Botsvana 1 - 3 Alsír
0-1 Amine Gouiri ('44)
0-2 Mohamed Amoura ('52)
1-2 Tebogo Kopelang ('70)
1-3 Mohamed Amoura ('74)
Eþíópía 0 - 2 Egyptaland
0-1 Mohamed Salah ('31)
0-2 Zizo ('40)
Gana 5 - 0 Tsjad
1-0 Antoine Semenyo ('2)
2-0 Inaki Williams ('32)
3-0 Jordan Ayew ('37, víti)
4-0 Mohamed Salisu ('57)
5-0 Ernest Nuamah ('69)
Níger 1 - 2 Marokkó
1-0 Youssef Oumarou ('47)
1-1 Ismael Saibari ('60)
1-2 Bilal El Khannouss ('91)
Búrúndí 0 - 1 Fílabeinsströndin
0-1 Evann Guessand ('16)
Rúanda 0 - 2 Nígería
0-1 Victor Osimhen ('11)
0-2 Victor Osimhen ('45+3)
Suður-Afríka 2 - 0 Lesótó
1-0 Relebohile Mofokeng ('60)
2-0 Jayden Adams ('64)
Miðbaugs-Gínea 2 - 0 Sao Tome & Principe
1-0 Emilio Nsue ('14)
2-0 Iban Salvador ('17)
Búrkína Fasó 4 - 1 Djibútí
1-0 Josue Tiendrebeogo ('12)
2-0 Bertrand Traore ('33)
3-0 Mohamed Zougrana ('47)
4-0 Lassina Traore ('67)
4-1 Samuel Akinbinu ('88, víti)
Austur-Kongó 1 - 0 Suður-Súdan
1-0 Theo Bongonda ('45+3)
Gínea 0 - 0 Sómalía
Athugasemdir