Alfons Sampsted var á skotskónum er Birmingham City vann 30. deildarsigur sinn á tímabilinu með því að leggja Burton að velli, 2-1, í C-deildinni í dag. Benoný Breki Andrésson hjálpaði þá Stockport að komast í umspil.
Birmingham var þegar búið að tryggja sér titilinn fyrir þessa umferð og er nú markmiðið að fara yfir 100 stiga múrinn.
Liðið færðist nær því markmiði í dag. Alfons fékk tækifærið í byrjunarliðinu.
Hann skoraði fyrsta mark sitt fyrir félagið í leiðinni. Alfons fékk boltann rétt fyrir utan teiginn eftir hornspyrnu og klíndi honum í hornið.
Alfons og Willum Þór Willumsson byrjuðu báðir leikinn og þá kom Jón Daði Böðvarsson inn á í liði Burton.
Birmingham er með 99 stig á toppnum þegar tvær umferðir eru eftir en Burton í 20. sæti, rétt fyrir ofan fallsæti.
Benoný Breki átti flotta innkomu í 2-1 sigri Stockport County á Huddersfield Town.
Framherjinn kom inn af bekknum í síðari hálfleik og fiskaði dýrmæta vítaspyrnu á 87. mínútu sem skilaði sigrinum í hús. Þetta þýðir að Stockport mun fara í umspil um sæti í B-deildina.
Jason Daði Svanþórsson byrjaði hjá Grimsby Town sem gerði 2-2 jafntefli við Port Vale í D-deildinni. Jason átti nokkrar góðar marktilraunir í leiknum, en var óheppinn að skora ekki.
Grimsby er í 7. sæti, sem gefur þáttökurétt í umspilið, þegar tvær umferðir eru eftir.
Sævar Atli Magnússon og hans menn í Lyngby gerðu 1-1 jafntefli við Viborg í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar.
Leiknismaðurinn byrjaði hjá Lyngby sem er í næst neðsta sæti með 20 stig.
Athugasemdir