Liverpool og Man Utd á eftir Simons - Sancho áfram hjá Chelsea - Real Madrid hefur áhuga á Rodri
   mán 21. apríl 2025 18:32
Ívan Guðjón Baldursson
Danmörk: FCK á toppinn - Galdur á bekknum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Horsens
Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í danska boltanum í dag þar sem Mikael Anderson var í byrjunarliði AGF á útivelli gegn FC Kaupmannahöfn í toppbaráttunni.

FCK sigraði leikinn nokkuð þægilega, 3-1, og var Rúnar Alex Rúnarsson á bekknum.

Mikael lék allan leikinn en tókst ekki að koma í veg fyrir tap gegn gæðamiklum andstæðingum, þar sem Viktor Klaesson, Jordan Larsson og Amin Chiakha skoruðu mörkin.

FCK er á toppi dönsku deildarinnar sem stendur, einu stigi fyrir ofan Midtjylland sem á leik til góða þegar fimm umferðir eru eftir af tímabilinu. AGF og FCK mætast aftur í næstu umferð í Árósum.

Í næstefstu deild mættust Íslendingaliðin Kolding IF og Horsens en enginn Íslendingur kom við sögu.

Galdur Guðmundsson var ónotaður varamaður hjá Horsens í 2-0 tapi en Ari Leifsson var ekki í hóp hjá Kolding vegna meiðsla.

Horsens hefði getað veitt Fredericia alvöru samkeppni um annað sæti deildarinnar, sem veitir þátttökurétt í efstu deild á næstu leiktíð, með sigri hér í dag en það mistókst. Nú eru Galdur og félagar fjórum stigum á eftir og á Fredericia auk þess leik til góða.
Athugasemdir