Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 21. maí 2023 21:18
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Ekkert fær stöðvað Víking - Valsmönnum tókst ekki að skora
Nikolaj Hansen gerði annað mark Víkings
Nikolaj Hansen gerði annað mark Víkings
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Viktor Örlygur skoraði einnig fyrir Víking
Viktor Örlygur skoraði einnig fyrir Víking
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Tryggvi Hrafn hefur átt betri daga fyrir framan markið
Tryggvi Hrafn hefur átt betri daga fyrir framan markið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mathias Rosenörn gerði vel á móti Val
Mathias Rosenörn gerði vel á móti Val
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur vann áttunda leik sinn í röð í Bestu deild karla í kvöld er liðið bar sigurorð af HK, 2-1, í Kórnum. Valur og Keflavík gerðu markalaust jafntefli á Origo-vellinum.

Víkingar eru í góðu formi þessa dagana og hélt það áfram gegn HK en það tók sinn tíma að gera fyrsta markið.

Gestirnir hótuðu marki nokkrum sinnum og raun ótrúlegt að það hafi tekið 29 mínútur að fá mark en það kom. Viktor Örlygur Andrason gerði það eftir hornspyrnu.

Boltinn barst á hann fyrir utan vítateiginn og reyndi hann skot en boltinn fór af varnarmanni og aftur til hans áður en hann mundaði skotfótinn og stýrði boltanum í netið.

Staðan 1-0 í hálfleik og hefði sú forysta getað verið töluvert stærri.

Víkingar byrjuðu þann síðari ágætlega. Logi Tómasson átti fína tilraun en Arnar Freyr Ólafsson varði vel. Logi var þá heppinn að sleppa við rautt spjald stuttu síðar er hann braut tvívegis á Örvari Eggertssyni en fékk aðeins gult spjald fyrir.

HK-ingar voru líklegri næstu mínúturnar á eftir til að jafna en fengu síðan skell þegar Nikolaj Hansen stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 74. mínútu.

Mínútu síðar var Karl Friðleifur Gunnarsson rekinn af velli fyrir hættulegt brot á Eyþóri Aroni Wöhler. Það gaf HK-ingum meiri kraft og kom markið.

Eyþór Aron minnkaði muninn á 86. mínútu. Brynjar Snær átti skot sem fór af varnarmanni og upp í loft. Eyþór vann baráttuna um boltann og kom honum yfir línuna.

Víkingar héldu út og fögnuðu átta sigri tímabilsins en liðið er á toppnum með 24 stig. HK er með 13 stig í 4. sæti.

Markalaust á Origo

Valsmenn fóru illa að ráði sínu er Keflavík kom í heimsókn á Origo-völlinn en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Valsarar hafa spilað skemmtilegan sóknarleik á tímabilinu en náðu ekki að nýta færin í kvöld.

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom sér í dauðafæri strax í byrjun leiks eftir að Andri Rúnar Bjarnason lagði boltann fyrir hann en skotið var slakt.

Andri Rúnar kom boltanum í netið á 25. mínútu en markið tekið af vegna rangstöðu og Andri ekki sáttur við þann dóm.

Á síðustu fimmtán mínútum leiksins fengu Andri og Tryggvi dauðafæri til að skora. Andri Rúnar komst fyrst einn á móti Mathias Rosenörn en norski markvörðurinn varði frábærlega og þá komst Tryggvi fyrir framan opið mark stuttu síðar en skaut boltanum framhjá.

Færin fóru svo sannarlega forgörðum í dag og þurftu Valsarar að sætta sig við markalaust jafntefli. Valur er með 19 stig í öðru sæti en Keflavík með 5 stig í 11. sæti.

HK 1 - 2 Víkingur R.
0-1 Viktor Örlygur Andrason ('29 )
0-2 Nikolaj Andreas Hansen ('74 )
1-2 Eyþór Aron Wöhler ('86 )
Rautt spjald: Karl Friðleifur Gunnarsson, Víkingur R. ('75) Lestu um leikinn

Valur 0 - 0 Keflavík
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner