
Kvennalið Manchester United vann dramatískan 2-1 sigur á nágrönnum sínum í Manchester City í WSL-deildinni á Englandi í dag og frestaði því um leið fagnaðarlátum í Lundúnum.
Hayley Ladd skaut United í forystu á 2. mínútu með góðu skoti af 20 metra færi.
Vont versnaði fyrir Man City en Ellie Roebuck, markvörður liðsins, var rekin af velli fyrir fólskulegt brot á Nikita Parris undir lok fyrri hálfleiksins.
Man CIty náði samt sem áður að jafna. Sænska landsliðskonan Filippa Angeldal kom með fyrirgjöf sem hafnaði í netinu.
Það var útlit fyrir að Chelsea myndi fagna titlinum en í uppbótartíma skoraði Lucia Garcia sigurmark United og tryggði 2-1 sigur.
United á því enn möguleika á að vinna titilinn en liðið er nú með 53 stig, tveimur stigum á eftir Chelsea. United mætir Liverpool í lokaumferðinni á meðan Chelsea spilar við botnlið Reading.
Athugasemdir