Ísak Bergmann Jóhannesson og Willum Þór Willumsson voru báðir með stoðsendingu í Evrópuboltanum í dag.
Skagamaðurinn Ísak var í byrjunarliði FCK í dag og lék allan leikinn en hann lagði upp sigurmark liðsins í 4-3 sigri á AGF í meistarariðli dönsku úrvalsdeildarinnar. Hákon Rafn tók út leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda.
Hann lagði upp markið á 87. mínútu leiksins og afar mikilvægt það í baráttunni um titilinn. Mikael Neville Anderson lék allan leikinn fyrir AGF og komst einnig á blað en hann gerði annað mark AGF í leiknum.
FCK er í efsta sæti riðilsins með 55 stig, fjórum stigum meira en Nordsjælland sem á leik inni. Aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni. AGF er í 4. sæti með 47 stig.
Ísak Óli Ólafsson lék allan leikinn í vörn Esbjerg sem vann Aarhus Fremad, 3-1, í dönsku C-deildinni. Þessi sigur kom Esbjerg í efsta sæti meistarariðilsins með 58 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af móti.
Fyrsti byrjunarliðsleikur Oskars
Oskar Sverrisson, leikmaður Varberg í Svíþjóð, var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu á tímabilinu er lið hans tapaði fyrir Brommapojkarna, 2-1, í dag. Hann lék allan leikinn fyrir Varberg en liðið er í neðsta sæti með 4 stig.
Valgeir Lunddal Friðriksson var þá i liði Häcken sem gerði 2-2 jafntefli við Malmö í toppslag. Valgeir fór af velli á 69. mínútu. Häcken er í öðru sæti með 19 stig.
Aron Bjarnason lék þá allan leikinn fyrir Sirius sem tapaði fyrir Halmstad, 2-1. Óli Valur Ómarsson var ekki með Sirius vegna meiðsla en liðið er í næst neðsta sæti með 5 stig.
Júlíus Magnússon var í byrjunarliði Fredrikstad sem gerði 1-1 jafntefli við Hodd. Hann fór af velli á 58. mínútu en Fredrikstad er í 4. sæti með 15 stig.
Jónatan Ingi Jónsson og Valdimar Þór Ingimundarson voru báðir í byrjunarliði Sogndal sem tapaði fyrir Ranheim, 2-0. Jónatan fór af velli á 60. mínútu en Valdimar lék allan leikinn. Sogndal er í öðru sæti með 17 stig.
Arnar Þór Guðjónsson spilaði allan leikinn í vörn Raufoss sem tapaði fyrir Kongsvinger, 2-1. Raufoss er í 13. sæti með 9 stig.
Willum klikkaði á punktinum en bætti upp fyrir það
Willum Þór Willumsson átti viðburðaríkan dag á skrifstofunni hjá Go Ahead Eagles er liðið vann Volendam 3-0.
Hann klikkaði af vítapunktinum strax á 2. mínútu en bætti upp fyrir það með að leggja upp annað mark liðsins á 51. mínútu. Hann hefur því komið að ellefu mörkum í deildinni á tímabilinu.
Eagles er í 10. sæti með 40 stig.
Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn í vörn Slask Wroclaw sem vann mikilvægan 4-2 sigur á Legnica í fallbaráttunni í Póllandi. Slask kom sér upp úr fallsæti í bili en vonast nú eftir að Wisla Plock tapi stigum.
Viðar Ari Jónsson og hans menn í ungverska liðinu Honved eru ekki í góðum málum. Liðið tapaði fyrir Mezokovesd-Zsory í dag, 3-2. Viðar lék síðasta hálftímann en liðið er í næst neðsta sæti fyrir lokaumferðina.
Athugasemdir