Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 21. júlí 2020 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
'El Loco' og fleiri koma Leeds á réttan stað eftir 16 stormasöm ár
Elskaður og dáður í Leeds. Marcelo Bielsa.
Elskaður og dáður í Leeds. Marcelo Bielsa.
Mynd: Getty Images
Tveir grjótharðir Leedsarar. Þorkell Máni Pétursson og Árni Þór Birgisson.
Tveir grjótharðir Leedsarar. Þorkell Máni Pétursson og Árni Þór Birgisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eigandinn Andrea Radrizzani.
Eigandinn Andrea Radrizzani.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Leeds eru ástríðufullir.
Stuðningsmenn Leeds eru ástríðufullir.
Mynd: Getty Images
Kalvin Phillips. Hefur spilað djúpur á miðjunni í 4-1-4-1 kerfi Bielsa.
Kalvin Phillips. Hefur spilað djúpur á miðjunni í 4-1-4-1 kerfi Bielsa.
Mynd: Getty Images
Klúðrar fullt af færum en er mikilvægur í kerfi Bielsa. Hann er vinnusamur og alltaf klár í slaginn.
Klúðrar fullt af færum en er mikilvægur í kerfi Bielsa. Hann er vinnusamur og alltaf klár í slaginn.
Mynd: Getty Images
'El Loco'
'El Loco'
Mynd: Getty Images
Biela hefur veitt mörgum innblástur.
Biela hefur veitt mörgum innblástur.
Mynd: Getty Images
Þar á meðal Pep Guardiola.
Þar á meðal Pep Guardiola.
Mynd: Getty Images
Í september hefst nýr kafli hjá Leeds eftir sextán ára fjarveru í deild þeirra bestu.
Í september hefst nýr kafli hjá Leeds eftir sextán ára fjarveru í deild þeirra bestu.
Mynd: Getty Images
Dagurinn er 2. maí 2004. Lagið 'Yeah' með Usher toppar vinsældarlista, lokaþátturinn af sjónvarpsþáttaröðinni Friends var á næsta leyti og Leeds fellur úr ensku úrvalsdeildinni eftir afar erfitt tímabil.

Núna, 5920 dögum síðar, þá komst félagið loksins aftur á þann stað það sem það á að vera: Ensku úrvalsdeildina.

„Saga Leeds síðustu 16 árin hefur verið mjög stormasöm," segir Árni Þór Birgisson, formaður Leeds klúbbsins á Íslandi, í samtali við Fótbolta.net.

Leeds á fjölmarga stuðningsmenn á Íslandi og eru líklega einhverjir að fara að sjá félagið í fyrsta sinn í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Í kringum árið 2000 var Leeds með eitt besta lið Englands. Leikmenn eins og Alan Smith, Harry Kewell, Mark Viduka, Jonathan Woodgate og Rio Ferdinand hjálpuðu liðinu að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar tímabilið 2000/21, þar sem liðið tapaði gegn Valencia. Ásamt því endaði liðið í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar það tímabil. Leeds hefur þrisvar unnið efstu deild á Englandi, þar á meðal 1992 - síðasta tímabilið áður en enska úrvalsdeildin varð til í núverandi mynd.

Eftir að hafa komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar þá spennti félagið bogann of hátt og allt fór í rugl. Félagið tók út stór lán í von um að halda áfram að ná Meistaradeildarsæti. Liðið missti hins vegar af Meistaradeildarsæti tvö tímabil í röð og lenti í kjölfarið í miklum fjárhagsvandræðum. David O'Leary var rekinn, það þurfti að selja leikmenn og fall varð svo niðurstaðan.

„Eftir að hafa spennt bogann of hátt í byrjun aldar og misst af meistaradeildarsæti tvö ár í röð, eftir að hafa komist í undanúrslit keppninnar þar áður, þá fór að halla undan fæti hjá félaginu. Leeds var á meðal efstu fimm liða ensku úrvalsdeildarinnar frá 1997 til 2002, en fall varð raunin árið 2004. Tímabilin þar á eftir mörkuðust af miklum fjárhagsvandræðum og eigendaveseni," segir Árni.

„Félagið fór tvisvar í greiðslustöðvun og fékk í bæði skiptin stigafrádrátt; Annars vegar tíu stig tímabilið 2006/2007 þar sem félagið féll í League 1 (C-deild) og hins vegar 15 stig tímabilið 2007-2008 sem olli því að liðið komst ekki beint aftur upp í Championship-deildina. Eftir þrjú leiðinleg ár í League 1 komst liðið loksins aftur í Championship þar sem við tóku mörg ár af miðjumoði og áframhaldandi eigendaveseni."

„Það var ekki fyrr en 2017 þegar núverandi eigandi, Andrea Radrizzani, eignaðist félagið sem hlutirnir fóru að gerast. Hann byrjaði að byggja upp innviðina hjá félaginu en var ekki að leita að skyndiárangri. Þökk sé þeirri uppbyggingu er félagið meira en klárt í deild þeirra bestu í dag."

Eigandinn mjög vinsæll
Eins og Árni bendir á þá fóru hlutirnir að gerast þegar Radrizzani kom inn árið 2017. Hann keypti félagið af landa sínum, hinum skrautlega Massimo Cellino. Með Radrizzani kom stöðugleiki og uppbygging sem stuðningsmenn Leeds höfðu lengi verið að bíða eftir.

Þessi 45 ára gamli Ítali er öflugur kaupsýslumaður og honum virðist mjög annt um félagið. Sagan segir að áhugi hans á kaupum á Leeds hafi vaknað eftir hádegisverð með fótboltagoðsögninni Kenny Dalglish.

„Núverandi eigandi er gríðarlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Leeds, enda hefur eigendasaga félagsins síðustu áratugi verið ansi skrautleg þar til hann tók við," segir Árni. „Núverandi eigandi var sá fyrsti sem byrjaði á að byggja upp innviðina og búa til frábært umhverfi og sigurhugarfar hjá öllu starfsfólki félagsins. Ekki bara hjá leikmönnum, heldur öllum. Þetta hugarfar smitar svo út frá sér og trúin á liðinu hefur aukist jafnt og þétt frá því hann eignaðist það."

Frá því að Radrizzani tók við hefur hann ráðið menn sem kunna til verka í allar mikilvægustu stöðurnar. Það er að borga sig núna.

Grjótharðir stuðningsmenn
Það er risastórt fyrir ensku úrvalsdeildina að fá þetta stóra félag aftur upp í deild þeirra bestu. Áhugi á Leeds hér á Íslandi er mikill og það verður mjög svo gaman að fylgjast með leikjunum gegn erkifjendunum í Manchester United á næsta tímabili.

„Stuðningsmannaklúbbur Leeds á Íslandi telur tæplega 600 félaga og er fjórði eða fimmti stærsti stuðningsmannaklúbbur landsins eftir því sem ég best veit. Stuðningsmenn liðsins grjótharðir," segir formaður klúbbsins.

„Það eru iðulega fjölmenni á þeim pöbbum sem sýnt hafa leiki með Leeds þrátt fyrir að liðið hafi verið í neðri deildum. Tveir góðir Leedsarar mættu meira að segja reglulega á pöbbinn sinn þegar liðið spilaði í League 1 til að fylgjast með Leeds leik dagsins þótt að hann ekki í sjónvarpinu. Þeir störðu spenntir á textavarpið og biðu eftir stöðuuppfærslum þar."

„Það er hrikalega sætt fyrir íslenska Leedsara, sem og Leedsara út um allan heim, að fá liðið aftur í úrvalsdeild. Biðin hefur verið löng og erfið frá 2004."

Kalvin Phillips í enska landsliðið?
Árni telur að liðið verði styrkt í sumar, en leikmenn verði þá að henta þeirri hugmyndafræði sem þjálfarinn fer eftir. „Leeds mun styrkja sig, það er ljóst, en það er mjög erfitt að segja í dag hversu mikið. Þjálfari liðsins er mjög í haldssamur og spilar leikkerfi sem hentar ekki öllum, og munu þeir leikmenn sem hann fær til liðsins þurfa að passa inn í hans kerfi."

Margir áhugaverðir leikmenn eru í leikmannahópi Leeds en þeirra áhugaverðastur er líklega miðjumaðurinn Kalvin Phillips. Árni telur að hinn 24 ára gamli Phillips muni fljótt komast inn í landslið Englendinga.

„Ég tel að Kalvin Phillips muni verða kominn í enska landsliðið á næsta tímabili," segir Árni og hvað varðar áhugaverða leikmenn þá bendir hann á: „Pablo Hernandez getur skapað stórhættu úr engu, Luke Ayling er ekki besti fótboltamaður í heimi, en stemningin og orkan sem fylgir honum er gríðarleg. Patrick Bamford hefur ekki verið í uppáhaldi stuðningsmanna, þar sem enginn sóknarmaður í deildinni hefur klúðrað jafnmörgum færum og hann á þessu tímabili, en ég efast um að það sé til sá framherji sem hentar betur en hann í leikkerfi Bielsa. Helder Costa mun vilja sanna sig í úrvalsdeildinni og hann hefur getuna í að spila þar, og Mateusz Klick, pólskur miðjumaður, hefur vaxið mikið síðustu ár og mun vonandi blómstra á næsta tímabili."

„Þetta eru þeir sem ég tel að muni vera í stóru hlutverki í úrvalsdeild, þó einhverjir sé eflaust ósammála mér þar."

El Loco
Marcelo Bielsa, það er kóngurinn í Leeds. Argentínumaðurinn tók óvænt við sem knattspyrnustjóri Leeds fyrir tveimur árum síðan og núna er hann búinn að koma liðinu upp. Stuðningsmenn elska hann og það skiljanlega. Honum tókst það sem fjórtán öðrum stjórum tókst ekki, að koma Leeds í deild þeirra bestu á nýjan leik. Hann var grátlega nálægt því að koma liðinu upp í fyrra, en tókst það í annarri tilraun.

Með því að smella hérna má lesa athyglisverða grein Phil Hay um það hvernig Bielsa varð stjóri Leeds. Hann velur félögin og ekki öfugt. Ef félögin ná ekki að heilla hann, þá neitar hann. Hann þarf að vera 'all-in' í verkefninu og hjá Leeds er það þannig. Hann heillaðist, borgin varð ástfangin af honum og sú ást virkar í báðar áttir.

Bielsa hefur komið víða við á þjálfaraferli sínum og þótt hann hafi ekki unnið marga titla, þá hefur hann veitt gríðarlega mörgum innblástur; stjórum eins og til dæmis Pep Guardiola, Mauricio Pochettino og Diego Simeone.

Bielsea hefur sérstakar aðferðir og aðhyllist stórskemmtilegan leikstíl. Hann gerir miklar kröfur á leikmenn, innan sem utan vallar. Það vakti athygli stuttu eftir að hann kom til Leeds að hann sendi leikmenn sína út að tína rusl í þrjá tíma. Hann gerði það til að sýna leikmönnunum hvað stuðningsmennirnir vinna mikið til að sjá liðið spila. Það sem meira er að þá virða allflestir leikmenn Bielsa og þá vinnu sem hann leggur í hvert verkefni. Ef Bielsa sjálfur er ekki ánægður með hugarfar þitt, þá færðu ekki að spila fyrir lið hans.

Hann leggur mikið upp úr taktík, leikgreningu á andstæðingum og líkamlegu standi leikmanna. Menn verða að geta hlaupið. Bielsa segir að ef leikmenn væru vélar þá myndi hann aldrei tapa.

Guardiola, sem er í dag stjóri Manchester City, hefur talað um Bielsa sem besta knattspyrnustjóra í heimi. Titlaskápurinn hjá Argentínumanninum er ekki risastór en Guardiola segir það ekki skipta mestu máli. „Ég hef verið það heppinn að tala við hann. Hann er ótrúleg manneskja. Enginn knattspyrnustjóri spilar eins og hann. Að vinna titla hjálpar þér að hafa vinnu á næstu leiktíð, en þú manst ekki eftir titlunum á dánarbeðinu. Þú tekur minningar með þér og þú hugsar hvort að þjálfari hafi kennt þér eitthvað. Marcelo er á toppi listans," segir Guardiola.

Hverju má búast við í úrvalsdeildinni á næsta tímabili?

Árni segir: „Marcelo Bielsa er kallaður El Loco (sá klikkaði) og það lýsir honum vel. Hann er heltekinn af fótbolta og hugsar ekki um neitt annað en fótbolta. Hann er taktískur snillingur sem gerir gríðarlegar kröfur á leikmenn sína. Hann er svakalega þrjóskur og gerir helst ekki breytingar á byrjunarliði sínu nema vegna meiðsla og leikbanna. Bielsa vill að sitt lið haldi boltanum, og þegar hann tapast þá er spiluð hápressa til að vinna hann aftur. Til að þetta gangi upp þurfa leikmenn að vera í toppformi og eru gerðar gríðarlegar kröfur til leikmanna liðsins um að vera í besta mögulega forminu."

„Bielsa mun vilja stimpla sig inn í úrvalsdeildina hratt og vel, og hans kröfur munu ekki vera að rétt halda sér uppi, heldur mun hann vilja sjá liðið sitt gera mun betur en það."

Á Englandi hafa viðtölin við Bielsa verið mjög skemmtileg. Hann kann ekki alveg enskuna og mætir því með aðstoðarmann sinn með sér og fær hann til að túlka. Það var mjög kostulegt viðtalið hann eftir fyrsta deildarleik Leeds árið 2018. Hann vildi svara spurningunum sjálfur. Hann var spurður á ensku, það var þýtt fyrir hann, hann svaraði á spænsku, fékk svarið á ensku frá túlknum sínum og reyndi að svara sjálfur á ensku.

„Hann er það heltekinn af fótbolta og öllu í kringum hann að hann hefur ekki haft tíma til að læra enskuna. Fótboltinn er hans tungumál," segir Árni og er það hárrétt. Fótboltinn er hans tungumál.

Nýr kafli
Sumarið 2004 var átakanlegt fyrir Leeds stuðningsmenn, sem og fyrir aðdáendur sjónvarpsþáttana um vinina sex í New York. Aðdáendur Friends fá aldrei elleftu seríuna, en stuðningsmenn Leeds fá nýjan kafla.

Biðin hefur verið löng, eiginlega alltof löng, og síðustu 16 ára hafa verið mjög erfið og þreytandi fyrir stuðningsmenn félagsins. En núna er komið að því, undir handleiðslu 'El Loco' mun Leeds mæta aftur á Anfield, Old Trafford og Stamford Bridge. Markmiðin verða háleit og þessi nýi kafli hjá þessu tæplega 101 árs gamla knattspyrnufélagi verður mjög, mjög spenandi.

Sjá einnig:
Miðjan - Lífleg Leeds umræða með Mána og Árna



Athugasemdir
banner
banner