mán 21. október 2019 22:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jakob, Siggi Marínó og Jónas framlengja við Þór
Mynd: Thorsport
Fyrr í kvöld var tilkynnt að Ólafur Aron Pétursson hefði skrifað undir hjá Þór.

Á sama tíma var tilkynnt að þeir Jónas Björgvin Sigurbergsson, Jakob Snær Árnason og Sigurður Marínó Kristjánsson hefðu skrifað undir áframhaldandi samninga við félagið.

Jónas Björgvin er 25 ára og hefur spilað allan sinn feril með Þór. Hann hefur spilað 131 leik í deild og bikar og skorað í þeim þrettán mörk. Jónas lék átján leiki í Inkasso-deildinni í sumar og skoraði í þeim eitt mark. Jónas skrifaði undir tveggja ára samning.

Jakob Snær er 22 ára og hefur leikið nánast allan sinn feril með Þór. Hann lék átta leiki með KF í 3. deildinni árið 2017. Jakob á 54 leiki að baki fyrir Þór í deild og bikar og hann hefur skorað fimm mörk í þeim leikjum. Í sumar skoraði hann tvö mörk í átján deildarleikjum. Jakob semur til þriggja ára.

Sigurður Marínó Kristjánsson er 28 ára gamall. Sigurður á 251 meistaraflokksleiki að baki og hefur leikið alla tíð með Þór fyrir utan tímabilið í fyrra þegar hann lék með Magna. Sigurður hefur stundum verið kallaður Evrópu-Siggi en hann skoraði þrennu í 5-1 sigri Þór á Bohemian í undankeppni fyrir Evrópudeildina árið 2012. Sigurður skrifar undir þriggja ára samning.
Athugasemdir
banner
banner
banner